Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 58
Fornleifar hafa strangvísindalegt gildi en þær geta líka höfðað til tilfinninga,
verið fallegar, dularfullar og jafnvel orðið kveikjan að alls kyns sögum og
vangaveltum. Hringlaga rústir hafa oft vakið undrun meðal fólks, jafnvel
frekar en rústir með aðra lögun þótt ekki hafi mikið verið skrifað um þær.
Sennilega er lögunin aðalástæðan en hringformið er ekki mjög algengt
meðal íslenskra fornleifa. Þessar tóftir eru auðvitað með ýmsu móti, litlar
eða stórar, stæðilegar eða jarðlægar, í túni eða úthögum. Sumar þeirra
hafa verið túlkaðar sem hof eða lögréttur í meðförum fornfræðinga á 19.
öld og jafnvel hafa hringlaga tóftir, ætlaðir dómhringar, verið hafðar sem
aðalrök fyrir því að tilteknar tóftaþyrpingar séu þingstaðir.1
Ennþá eru sumar hringlaga rústir sveipaðar dularfullum ljóma og t.d.
er ekki langt síðan höfundur þessarar greinar hitti bónda sem gaf lítið út
á þá skýringu að hringlaga rústir skammt frá bæ hans væru fjárborgir.
Hann taldi þær vera virki. Og hver veit? Það er ekki hægt að alhæfa um
hlutverk rústa af útlitinu einu saman. Stundum eru þessar rústir ekki mjög
gamlar og jafnvel til ritaðar heimildir um notkun þeirra. Aðrar hringrústir
eru fornar og án skilríkja, t.d. hefur verið grafið í eina slíka í Húshólma á
Reykjanesi sem er eldri en miðaldalagið frá 12262 og hefur verið túlkuð
sem fjárborg þótt sannanir fyrir því skorti reyndar. Ritheimildir hafa
hingað til verið aðaluppspretta vitneskju okkar um fjárborgir og það er
ekki fyrr en á allra síðustu árum sem fjöldi meintra fjárborga hefur verið
skoðaður á vettvangi við fornleifaskráningu. Í heimildum, þá aðallega
örnefnaskrám, eru hringlaga mannvirki, oftast í úthögum, gjarnan kynnt
sem ævagamlar eða fornar fjárborgir.3 Það hvílir því oft yfir þeim fyrnska
BIRNA LÁRUSDÓTTIR
FJÁRBORGIR