Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 60
FJÁRBORGIR 59
að hugtakið borg vísi á fjárborg og reyndar eru dæmi um að þau vísi ekki
einu sinni á hringlaga mannvirki eða borghlaðin. Þannig er t.d. fjárborg í
landi Reykjavíkur ferköntuð en ekki hringlaga7 og á Núpsstað er fjárborg
sporöskjulaga aðhald, eiginlega rétt sem er hlaðin upp við Borgarklett.8
Þá eru fjárborgir á Melrakkasléttu og sennilega víðar á Norðausturlandi
mjög mjó og af löng hús eða skýli eins og síðar verður vikið að.
Fram að þessu hefur umfjöllun um fjárborgir hér á landi aðallega snúist
um hvort þær gætu átt keltneskar rætur. Eru þær vangaveltur sprottnar af
byggingarlaginu og því að dreifing þeirra virðist fylgja útbreiðslu örnefna
sem hafa keltneskan uppruna.9 Þótt hugmyndirnar séu áhugaverðar út
af fyrir sig má líka skoða fjárborgirnar út frá öðru sjónarhorni. Þær eru
vitnisburður um ákveðinn þátt í sauðfjárrækt og mikilvægar sem hluti af
þróunarsögu mannvirkja sem hafa verið notuð fyrir sauðfé. Sauðfjárrækt
hefur alltaf skipað mikilvægan sess fyrir afkomu Íslendinga en á hinn
bóginn er margt á huldu um þróun hennar og áherslur frá landnámi
til nútíma þótt margt, bæði ritaðar heimildir og fornleifar, bendi til að
sauðfé hafi verið tiltölulega fátt fyrst eftir landnám en fjölgað eftir því
sem á leið.10 Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að leggja grunn að
sögu fjárborga.11
Heimildir um fjárborgir
Í Íslendingasögum og Sturlungu er hvergi minnst á fjárborgir þótt þar sé
enginn hörgull á sauðfé, enda er umhirða þess stór hluti af daglegu lífi
sumra sögupersóna auk þess sem sauðaþjófnaðir koma oft af stað æsilegri
atburðarás. Þá eru sauðamenn sömuleiðis eftirminnilegar persónur, oft
tröllslegir, einrænir og sérlundaðir, fara víða og fá oft veður af válegum
atburðum. Þrátt fyrir að borga sé ekki getið koma fjárhús oft fyrir í
sögunum, ýmist nærri eða fjarri bæjum en þau eru næstum alltaf kölluð
sauðahús, enda er sauður yfirleitt notað sem samheiti fyrir fé á þessum tíma
en vanaðir hrútar kallaðir geldingar. Ekki er heldur minnst á borgir eða
fjárborgir í fornbréfum þótt þar megi tína til ýmislegt sem tengist annars
konar mannvirkjum fyrir sauðfé, t.d. fjárhús, lambhús og sauðahús.12
Við upphaf 18. aldar fer fjárborgum að bregða fyrir í Jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalíns. Tilgangurinn með ritun jarðabókar var að
gefa yfirlit um allar bújarðir á Íslandi, skrá fróðleik um eyðibýli og nýbýli
og kanna möguleika til frekari byggðar. Höfundarnir höfðu því ekki
sérstakan áhuga á útihúsum, hvað þá fjárborgum. Samt sem áður minnast
þeir stuttlega á borgir þrisvar sinnum, alltaf í tengslum við hjáleigubyggð.