Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 71
70 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
grafið í tvær fornlegar og stórar tóftir í landi Klausturhóla og hins vegar í
smærri tóftir sem virtust yngri af yfirborðsummerkjum að dæma. Önnur
þeirra er á Efri-Brú en hin á Miðengi, eina borgin sem skráð hefur verið
í hraunlendi á svæðinu. Borgarörnefni eru tengd öllum rústunum. Þær
á Klausturhólum nefnast Laugamýrarborg, 18 m í þvermál og Borgin
er heldur minni, um 16 m. Borgin á Miðengi er í Borgarleyni, 11 m í
þvermál, og á Efri Brú á Grændalshæð, 10 m í þvermál. Grafið var gegnum
veggi, hér um bil frá miðju þeirra og vel inn fyrir innra byrði.
Borgirnar á Klausturhólum eru sennilega eldri en hinar. Laugamýrarborg
er reist beint ofan á gjóskulagi sem er annaðhvort frá 920 eða 934. Sama
gjóska sést undir Borginni, sem er 1,3 km norðvestar, en þar sést að
auki ljósgrátt gjóskulag sem líklega er frá 1104 undir hleðslum. Í báðum
mannvirkjum virðist sem stungið hafi verið niður þegar veggir voru
hlaðnir en það gætu líka verið merki um að stungið hafi verið innan
úr borgunum meðan þær voru í notkun, þ.e. taði mokað út. Óhreyfð
gjóskulög sem sjást undir veggjum eru horfin inni í báðum borgum
og það gæti bent til hins sama. Í báðum borgunum eru veggir úr torfi
eingöngu og sjást engin augljós merki um endurhleðslur. Lög sem hafa
safnast fyrir inni í borgunum eru mjög einsleit og líkjast áfokslögum. Þar
eru engin augljós merki um uppsöfnuð taðlög, traðk eða að mikil bleyta
hafi safnast fyrir inni í borgunum. Ekki er hægt að segja til um hvenær
6. mynd. Borgin, mjög sigin rúst í landi Klausturhóla, í baksýn sést í Bauluvatn og Búrfell.
Ljósmynd: Birna Lárusdóttir.