Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 73
72 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
borgarinnar fannst gjóskulag úr Kötlugosinu 1721, hið sama og fallið
hafði á borgirnar tvær í Grímsnesi, en hugsanlega var hún þó í notkun
um hríð eftir það.45
Samantekt og umræða
Fjárborgir þekkjast ekki af heimildum fyrr en á 18. öld og raunar er
ekkert vitað um hvenær farið var að reisa þær hér á landi. Þá þegar eru
borgir víða á undanhaldi, m.a. eru vísbendingar um að hjáleigur hafi
verið reistar á gömlum fjárborgastæðum og sumir virðast aðeins þekkja
mannvirkin af afspurn og rústum. Þrjár fjárborgarústir sem grafið hefur
verið í staðfesta þetta og virðast allar hafa verið af lagðar fyrir 1721 eða
mögulega skömmu eftir það. Á síðari hluta 18. aldar verður mönnum
nokkuð tíðrætt um borgir og notkun þeirra eykst að nýju, m.a. fyrir
tilstilli Magnúsar Ketilssonar og umbótamanna sem vildu auka gæði
íslensku ullarinnar. Enn er verið að hlaða borgir á fyrri hluta 20. aldar og
margar borgarústir sem enn eru vel uppistandandi, t.d. á Reykjanesi og
í Rangárvallasýslum, eru líklega hlaðnar á 19. öld. Þó er erfitt að alhæfa
um útbreiðslu eða notkunartíma mannvirkjanna á landsvísu, enda virðist
afar misjafnt hvenær þau leggjast af. Þannig eru sumar fjárborgir nýhlaðnar
á fyrri hluta 19. aldar, t.d. í einni sókn Rangárvallasýslu, en að mestu
af lagðar á öðrum, t.d. í Grímsnesi og tveimur sóknum í Skaftafellssýslum
af ritheimildum að dæma.
Fjárborgirnar eiga sér bæði aðdáendur og andmælendur í heimildunum.
Upplýsingarmenn virðast almennt hrifnir af þeim, aðallega af því að
ekki þurfi við til byggingarinnar og líka séu þær góður kostur fyrir
ullina sem var mikilvæg framleiðsluvara á 18. öld. Aðdáunin beinist líka
auðsjáanlega að þeim bændum sem eru tilbúnir til að leggja eitthvað á sig
til að reisa mannvirki sem eru ekki dæmigerð og ekki á allra færi – þannig
geta fjárborgir verið tákn um framfarahug og hugsun sem nær út fyrir
rammann. Aukin krafa um heygjöf virðist svo aðalorsök þess að síðla á 19.
öld er frekar hvatt til fjárhúsabygginga, og allra helst til garðahúsa, enda
hentaði illa að gefa í fjárborgum.
Bæði heimildir og fornleifaskráning benda til að fjárborgir hafi verið
misalgengar eftir landsvæðum. Í heimildum er þeirra aðallega getið á
Suðurlandi og svo norður með Vestur- og Austurlandi. Flest bendir til að
þetta megi skýra með veðurfari og landsháttum, að borgirnar séu aðallega
bundnar við svæði þar sem útigangur var mögulegur án gjafar og eftirlits
sauðamanns.