Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 76
FJÁRBORGIR 75
Hafi fjárhús þegar verið orðin nægilega mörg og stór skýrir það auðvitað
hvers vegna menn þurftu ekki að ráðast í fjárborgahleðslu á 19. og 20. öld.
Þetta er ósannað, enda hefur ekki verið grafið í nein fjárhús á svæðinu.
Ef þetta er rétt sýnir það hins vegar að fjölbreytni í búskaparháttum getur
verið mikil, jafnvel á tiltölulega litlu landsvæði og misjafnar áherslur milli
sveita sem ekki er augljóslega hægt að skýra með veðráttu, landsháttum
eða gróðurfari.
Enn á eftir að svara því hvaða tilgangi stóru hringlaga mannvirkin á
Klausturhólum hafa þjónað. Með góðri samvisku er hægt að útiloka margar
tegundir hringlaga mannvirkja út frá stærð og staðsetningu einni saman.
Tóftirnar geta t.d. tæplega verið af fjósum eða hlöðum og reyndar nær
útilokað að svo stór mannvirki hafi verið undir þaki. Þá væri ólíklegt að
finna kirkjugarð á svona stað úti á víðavangi. Heygarðar koma hins vegar
til greina. Á Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu hafa t.a.m. verið skráðar tvær
hringlaga rústir sem heita Heygarðar í mýrarjaðri, 10-12 m í þvermál61, og
báðar rústirnar á Klausturhólum eru í námunda við mýrlendi. Tóftirnar
gætu þá endurspeglað heyþörf, hugsanlega svo snemma sem á 10.-12. öld,
og mögulega að tún hafi ekki verið orðin nægilega stór eða gjöful þá til
að standa undir skepnufjölda. Þess má geta að skammt sunnan við syðri
rústina rennur heitur lækur, og því sennilegt að spretta hafi verið góð þar í
mýrinni. Að lokum er rétt að minnast á líkindi við hringlaga mannvirki í
túninu við Nesstofu á Seltjarnarnesi sem ollu nokkrum vangaveltum í lok
20. aldar. Þau eru fimm eða sex talsins, allt frá rúmum 20 m og upp í 45 m
í þvermál. Grafið var í nokkur þeirra en ekki fundust nein yfirborðslög eða
annað sem benti til að skepnur hefðu verið hafðar í gerðunum. Hlutverk
þeirra er því óljóst en sett var fram sú tilgáta að þau hefðu verið notaðir
til túnræktar, sem e.k. jarðvegsgildrur, aðferð landnema til að mynda og
halda utan um jarðveg til ræktunar í rýru landi.62 Ef laust mætti varpa
nánara ljósi á Klausturhólarústirnar með stærri uppgrefti og nákvæmum
greiningum, t.d. í leit að skordýrum, heyleifum eða frjókornum.