Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 187
186 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
fylgt eftir hugmyndafræðilegri né aðferðafræðilegri þróun greinarinnar
erlendis er saga greinarinnar hérlendis bæði löng og fjölbreytt. Rannsóknir
á íslenskum kumlum eiga sér þannig langa sögu enda má rekja forvitni
og áhuga á „haugum“ og högum forfeðranna langt aftur fyrir tilkomu
fornfræði eða fornleifafræði sem vísindagreinar. Fjölmargir fræðimenn
hafa komið að rannsóknum á íslenskum kumlum, eða einstaka þáttum
sem þeim tengjast, en sá sem afkastamestur hefur verið á þeim vettvangi
fyrr og síðar er án efa Kristján Eldjárn, sem helgaði stóran hluta starfsævi
sinnar þessum f lokki minja. Rit hans Kuml og haugfé, sem kom út 1956,
og í endurútgáfu 2000, stendur enn fyrir sínu sem mikilvægasta yfirlitsrit
íslenskra kumlarannsókna sem og íslenskra víkingaaldarrannsókna
almennt.
Þótt ýmislegt hafi breyst í tímans rás má segja að ákveðinnar einsleitni
gæti lengi vel þegar rannsóknarsaga íslenskra kumla er skoðuð. Þótt það
kunni að hljóma sérkennilega má segja að það sem einkenni margar þessara
rannsókna sé það að áherslan er ekki á kumlin sjálf, heldur eru þau fremur
verkfæri til þess fallin að varpa ljósi á aðra þætti. Fyrst og fremst er um að
ræða tvo óvissuþætti; annars vegar þann sem snýr að uppruna Íslendinga
og hins vegar þann sem lýtur að tímasetningu landnáms, en einnig
mætti nefna þætti eins og efnahagslegar aðstæður og viðskiptatengsl.
Sem afmarkaður f lokkur minja frá upphafsöld íslenskrar byggðar eru
kumlin enda vel til þess fallin að varpa skýrara ljósi á þessi atriði. Vegna
þessara rannsóknarmarkmiða hafa kumlin því gjarnan verið hlutuð niður
eftir eðli og eiginleikum gripanna sem mynda haugfé þeirra (sverð með
sverðum, kambar með kömbum o.s.frv.) í stað þess að líta á hvert kuml sem
merkingarbæra heild í sjálfu sér. Eftir formerkjum gerðfræðinnar hefur
hver gripaf lokkur síðan verið borinn saman við sína líka annarstaðar í
víkingaheiminum í leit að samhljómi. Kumlin eru því fyrst og fremst álitin
brotakenndar heimildir um samfélag en síður litið á þau sem mikilvæga hluta
af samfélagi eins og þau koma fyrir – þ.e. sem merkingarbærar heildir sem
veitt geta upplýsingar um hina „óáþreifanlegu“ þætti mannlegs samfélags,
hugarheim og átrúnað.1
Annað sem hefur einkennt margar íslenskar kumlarannsóknir er
ákveðin vantrú á upplýsingagildi kumlanna og mikil áhersla á lítilfjörleika
safnsins, fátæklega efnismenningu, tilkomulitla ásjónu kumlanna og
einsleitni þeirra. Þessi vantrú kemur í fyrstu á óvart en sé málið hins
vegar sett í samhengi er það kannski ósköp eðlilegt. Að verulegu leyti
stafar þetta líklega af vantrú á íslenskri fornleifafræði almennt í samanburði
við tvennt; annars vegar bókmenntaarfinn og hina rituðu Íslandssögu og