Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 189
188 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
benti á í inngangi má færa fyrir því rök að hagkvæmast hefði verið að
láta af þeim sið að leggja haugfé í grafir manna hafi aðstæður verið slíkar
– en það var ekki gert. Auk þess eru „fórnir“ eins og haugfé í gröfum
– hvort sem um er að ræða dýr eða gripi – í raun hvorki hagstæðar né
óhagstæðar í bókstaf legum skilningi. Dýrið eða gripurinn sem fórnað er,
er ekki vara (e. commodity) og athöfnin sjálf, fórnin, er varla knúin áfram
í hagnaðarskyni, né heldur beinlínis til þess að takmarka tap. Þess vegna
tel ég að það geti í grunninn valdið ákveðnum misskilningi að tala um
hana sem slíka. Það sem gleymist í þessum skýringum er að kumlhestarnir
sem um ræðir, og annað haugfé, finnast í ákveðnu samhengi (e. context)
sem ekki má slíta þá úr. Það er almennt viðurkennt að þetta samhengi, í
þessu tilfelli gröfin og greftrunin sem hún er hluti og afurð af, sé ákveðin
forsenda skilnings eða túlkunar. Þannig er til dæmis eitt að finna snúna
glerperlu eða brýni við uppgröft á verslunarstað en annað að finna sömu
gripi í kumli. Þótt vissulega hafi þeir síðarnefndu á lífsleið sinni ef til
vill komið við í verslunarstaðnum og víðar, og þannig tekið á sig ýmsar
myndir (e. identity) eins og vörur, gjafir, þýfi, gjaldmiðlar, erfðagóss,
fórnir – og nú síðast fornleifar, haugfé og Þjms. 10595. Í dag er okkur
tamt að hugsa um f lesta hluti sem vörur enda svo til allt falt í kapítalísku
Mynd 1. Í gröf 3 á Ytra-Garðshorni (Kt-87:3) í Svarfaðardal lágu maður og hestur í óskiptri
gröf. Greining beina bendir til þess að hinn greftraði sé kona á aldrinum 36-45 ára. Haugfé
var nokkurt og mátti bæði tengja það manni og hesti. (Heimild: Kristján Eldjárn 1966: 37).