Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 190
ORÐ Í BELG UM ÍSLENSKA KUMLHESTINN OG UPPRUNA HANS 189
markaðssamfélagi og f lestir hlutir auk þess bætanlegir (e. replaceable).
Kumlhesta og fjölda þeirra er hins vegar ekki hægt að skýra með vísun
í efnahagslegar aðstæður einar og sér, því þótt gröfin og greftrunin sé
vissulega hluti af stærra samhengi, sem m.a. er efnahagslegt, er hagkvæmni
varla megindrifkraftur athafnarinnar. Það hlýtur að hafa verið eitthvað
annað sem bjó að baki, eitthvað sem bauð fátæktinni byrginn, og það er
þetta sem oft hefur láðst að taka til greina við athuganir á kumlum og
haugfé. Í mörgum tilfellum virðist gengið út frá því að greftrunin hafi
farið fram í tómarúmi, einskonar hugsunarlaus og merkingarsnauð hlýðni
eða undirgefni manna sem stóðu máttvana gagnvart hefðinni. „Við gerum
þetta svona af því að svona hefur þetta alltaf verið gert.“ Þannig heldur
Kristján Eldjárn því til dæmis fram að „[f ]lestir hlutir daglegs lífs, þeir sem
á annað borð gátu rúmast í kumli, haf[i] verið nothæfir sem haugfé.“8 Það
má skilja þetta sem svo að það hafi nánast verið tilviljun háð hvaða gripir
enduðu í kumlinu. Þegar grafinn er fram bátur í kumli sem staðsett er
efst á bröttum ási nokkra kílómetra frá sjó9 er tilviljun hins vegar ekki það
sem manni dettur í hug. Hvorki hestur né bátur geta heldur talist rúmast
vel í kumli ef út í það er farið. Það hefur a.m.k. þurft að gera sérstaklega
ráð fyrir þeim við allan undirbúning og framkvæmd greftrunarinnar.
Þetta eitt og sér bendir til þess að athöfnin hafi hvorki verið hugsunarlaus
eða tilviljanakennd og ýtir frekar undir þá hugmynd að hún hafi verið
merkingarþrungin og mikilvæg.
Að halda því fram að þar sem landnámsmenn bjuggu við þann sið að þurfa
að greftra efnisleg verðmæti (sem gengið er út frá að þeir hafi átt lítið af )
með hinum látnu hafi þeir gripið til þess að fórna því sem nóg var af og síst
yrði saknað, er á marga vegu takmörkuð skýring og gagnrýniverð. Í fyrsta
lagi er gengið út frá því að kumlin séu spegilmyndir þess samfélags sem
þau skóp. Það er að segja að sköpun þeirra hafi verið passív og reglubundin
athöfn þar sem ekkert rými gafst til hugmyndaf lugs, tilf inningasemi,
samfélagsgagnrýni, eða blekkingar – allt var í föstum fyrirfram gefnum
skorðum. Þessi skýring virðist líka ræna greftrunarathöfnina öllu trúarlegu
(e. ritual) inntaki og gera hana í staðinn að hálfgerðri kvöð með það eitt
að markmiði að takmarka efnahagslegt tjón. Hafi það verið óhagkvæmt
og mönnum almennt á móti skapi að „fórna“ hlutum eða dýrum í grafir
hinna látnu hefðu þeir einfaldlega ekki gert það – og ef við snúum dæminu
við þá er heldur ekki hægt að koma auga á neitt sérstaklega hagkvæmt við
það að fórna hestum, svo ekki sé minnst á það að við vitum í raun lítið
um fjölda þeirra í landinu á þessum tíma.