Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 194
ORÐ Í BELG UM ÍSLENSKA KUMLHESTINN OG UPPRUNA HANS 193
Hrífunesi (Kt-155) í Vestur-Skaftafellssýslu var óvenjulegt að því leyti að
umhverfis niðurgrafið grafarrýmið var einföld grjóthleðsla, úr fremur
smáum, vatnssorfnum steinum (sjá mynd 2). Við annan enda hennar var
grjóthella reist upp á rönd.15 Þótt upplýsingar um þau séu ekki jafn ítarlegar
er sambærilegra hleðslna einnig getið við hestkumlin á Kálfborgará (Kt-
112:4) og á Núpum (Kt-121), en í báðum kumlum hvíldu tvö hross saman
í hringmyndaðri gröf.16 Slíkur umbúnaður er e.t.v. ekki óvenjulegur í
íslensku samhengi en engu að síður verður Hrífuneskumlið að teljast
óvenju vandað bæði meðal hest- og mannskumla. Margt má vissulega
segja um fundarskilyrði Hrífuneskumlanna en jarðvegseyðing af vatnsaga
leiddi þau í ljós og olli því jafnframt að óvíst er hvert umfang kumlateigsins
og fjöldi kumla hefur verið. Hvað sem því líður er umgjörð þessa vandaða
hestkumls afar áhugaverð og draga fundarskilyrðin á engan hátt úr þeim
íburði eða þeirri virðingu sem dýrinu virðist hafa verið sýnd við greftrun.
Sama íburð (eða e.t.v. virðingarvott) má einnig greina í því að hesturinn
er oft búinn eigin haugfé, reiðtygjum og/eða söðli. Þetta á bæði við í
sameiginlegum kumlum manns og hests og stökum hestkumlum. Af
ofangreindum stökum hestkumlum var haugfé að finna í kumlunum á
Kálf borgará (Kt-112:4), Glaumbæ (Kt-120:6), Árskógi (Kt-91), Enni
(Kt-77) og báðum kumlum á Hemlu (Kt-5:1), eða í helmingi tilvika. Í
öllum tilvikum, þar sem það er greinanlegt, er um muni eða brot að ræða
sem tengja má reiðtygjum eða búnaði hestsins, s.s. mél, gjarðahringjur,
málmdoppur eða kingur. Þar sem reiðtygi eru greftruð með hestinum
virðast þau gjarnan hafa verið spennt á hestinn (sjá mynd 5). Því má
e.t.v. fremur líta á reiðtygin eins og klæðnað eða skart manna – þ.e. þau
Mynd 3. Í gröf 4 á Sílastöðum (Kt-98:4) í Eyjafirði lágu maður og hestur í óskiptri gröf.
Haugfé var ríkmannlegt og mátti bæði tengja það manni og hesti. Greining beina bendir til þess
að hinn greftraði sé karlmaður á aldrinum 36-45 ára. (Heimild: Kristján Eldjárn 2000: 181).