Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 195
194 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
eru ekki lögð í gröfina sem fylgihlutir, heldur er hesturinn búinn eða
klæddur þeim. Þetta atriði eitt og sér, og það hversu algengt það virðist
vera, hrekur í sjálfu sér þá tilgátu að efnahagslegar aðstæður búi að baki
fjölda kumlhesta. Hafi íhaldssemi við efnisleg verðmæti og takmörkun
efnahagslegs tjóns verið aðaldrifkraftarnir hefðu menn líklega ekki fórnað
dýrum málmum eða öðrum búnaði á þennan hátt. Það virðist augljóst að
það eru aðrir þættir sem vega þyngra.
Lítið hefur hingað til verið rýnt í þær jarðnesku leifar kumlhestanna sem
varðveist hafa, en þær eru því miður ekki miklar enda lengi látið liggja
á milli hluta að hirða dýrabeinin úr kumlunum. Í dag eru varðveitt bein
rúmlega 30 hrossa,17 beinagrindur eða hlutar þeirra, þótt ástand þeirra
sé misjafnt. Um 1960 skoðaði dr. Günther Nobis18 bein kumlhesta sem
þá voru varðveitt í Þjóðminjasafni og tókst honum að greina þau til 19
einstaklinga. Það sem athyglisvert þótti við niðurstöður Nobis, og Kristján
Eldjárn bendir á í grein sinni um íslenska hestinn, var að af þeim skepnum
sem honum tókst að greina var engin hryssa. Eins og Kristján Eldjárn
tekur fram er bersýnilegt að varla sé um tilviljun að ræða. „Af einhverjum
ástæðum, sem nú eru óþekktar, hafa hryssur síður, eða alls ekki, verið
heygðar með mönnum“.19 Með öðrum orðum er augljóst að tilviljun
ræður því ekki hvaða hrossum er fórnað við greftranir – af einhverjum
ástæðum er hestum, karldýrum, fórnað í grafir manna. Rúnar Leifsson,
dýrabeinafornleifafræðingur, vinnur um þessar mundir að doktorsrannsókn
á dýrafórnum og hefur m.a. rannsakað kumlhestana. Samkvæmt honum
stendur ályktun Nobis enn í dag, þ.e. kvendýr hefur ekki með vissu fundist
og þegar hægt er að greina kyn er ávallt um karldýr að ræða.20
Samkvæmt rannsókn Nobis var aldur kumlhestanna 19 frá 5 vetrum
upp í 24. Þar af voru 7 einstaklingar eldri en 21 árs. Um þetta segir
Kristján Eldjárn: „Manni dettur í hug að oft hafi verið gripið til þess að
taka af lóga hross til þessara nota. Það var lítill skaði en gerði ef til vill
sama gagn“.21 Enn og aftur má lesa úr orðum Kristjáns þá skoðun að
fórnardýrið hafi litla sem enga merkingu og fórnin fyrst og fremst verið
kvöð. Ef sjö dýranna eru á bilinu 21-24 vetra þýðir það þó væntanlega
að 12 eru á bilinu 5-21 vetra, sem er fremur breitt bil. Þótt áhugavert sé
að svo margir einstaklingar séu eldri en 21 árs má því segja að tölurnar
séu jafn áhugaverðar ef horft er til þess hve aldursskiptingin er breið.
Rannsóknir Rúnars Leifssonar benda ennfremur til þess að það hafi
heyrt til undantekninga að fórna mjög gömlum eða mjög ungum dýrum.
Hið almenna hafi fremur verið að dýrin væru nær kjöraldri, en f lestir
kumlhestanna virðast vera á bilinu 5 eða 6 til 15 vetra.22