Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 204
ORÐ Í BELG UM ÍSLENSKA KUMLHESTINN OG UPPRUNA HANS 203
við höldum þessu hugarf lugi aðeins áfram og hverfum aftur inn í heim
dýraskreytisins eða „táknmálsins“ er hér ekki um ósvipaðar „myndir“ að
ræða. Ólíkum tegundum er skeytt saman í f lókin vafningsmynstur sem
tekst í krafti sameiningar að miðla boðskap sem ella hefði ekki komið
fram. Getur ekki verið að hér sé um raunveruleg tengsl að ræða? Þá má
einnig rifja upp þann sið að hluta dýrið niður og leggja aðeins líkamspart,
t.d. höfuðið, í gröfina, en hið sama sjáum við í skreytilistinni. Þótt þessa
siðar gæti ekki hér á landi finnum við dæmi þess að höfuð sé höggvið af
og lagt undir kvið dýrsins og jafnvel að tveimur hestum sé víxlað eins og
í kumlinu á Grímsstöðum (Kt-116). Sé sú greining rétt má í því tilfelli
jafnvel halda því fram að tveimur hestum hafi verið skeytt saman til þess
að mynda eina skepnu – með átta fætur...og geti nú hver fyrir sig!
Hér að framan hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort líta beri á hestinn
sem haugfé, heldur aðeins undirstrikað að í mörgum tilfellum geti það
verið vandkvæðum bundið eða jafnvel ómögulegt eins og í tilfelli stakra
hestkumla. Sé hestur hins vegar túlkaður sem hluti haugfjár er engu að
síður ljóst að hann sker sig þó nokkuð frá öðrum haugfjárf lokkum. Í
tilfelli hestsins (og hundsins líka) er ekki hægt að líta framhjá því að um
einstakling er að ræða – en ekki bara grip. Að því leyti tel ég mikilvægt
að kumlhesturinn sé ekki eingöngu túlkaður sem tákn (e. symbol), án
þess að ég dragi að nokkru leyti úr mikilvægi táknkerfisins. Líkt og kom
fram hér að framan eru hestar ekki eingöngu táknmál fornbókmenntanna
heldur birtast þeir síendurtekið sem nafngreindir einstaklingar, ákveðnum
eiginleikum gæddir, og á það jafnt við frásagnir þessa heims sem æðri
máttarvalda. Hið sama má segja um birtingarmyndir íslenska kumlhestsins.
Til upprif junar eru íslenskir kumlhestar í stuttu máli greftraðir með
mönnum, á meðal manna og eins og menn – og því má halda því fram að þeir
komi ekki aðeins fyrir sem tákngervingar yfirnáttúrulegra af la heldur sé
eðli þeirra, eins og það birtist í gröfunum, annað en „skynlausra“ skepna.
Eins og fram kemur í bæði ritheimildum og dýraskreytinu eru mörkin
á milli manna og dýra oft óljós, og ekki síst í tengslum við hestinn. Á
grundvelli þessa hefur því verið haldið fram að heimssýn manna hafi verið
önnur en okkar í dag og fremur einkennst af því að maðurinn upplifði
sig sem verandi í náttúrunni,49 en ekki yfir hana hafinn eins og okkur er
tamt í dag. Að því leyti var hesturinn jafningi mannsins, án þess að horft
væri framhjá því hve ólíkir þeir eru.
Í framhaldi af þessu er áhugavert að rifja upp frásagnir af hestaati sem
víða koma fyrir og Jesse Byock hefur sett í samband við heiður og fæðir
á þjóðveldisöld. Sé það rétt að valdabrölt manna, málarekstur eða ósætti