Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 205
204 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
hafi meðal annars byggst á eða stafað af þátttöku þeirra í hestaati er auðvelt
að koma auga á tengslin á milli manns og hests, en kannski erfiðara að
greina á milli þeirra.50 Hvar endar heiður mannsins og þróttur hestsins
tekur við? Á meðan á atinu stóð (a.m.k.) má með sanni segja að hestur
og maður hafi verið eitt. Hesturinn og eiginleikar hans eru framlenging
á manninum51 og velgengni hans er forsenda heiðurs.
Á sama hátt má líta á embætti goðorðsmanna, en eins og þau hafa
verið skilgreind voru þau ekki landfræðilega afmörkuð (að undanskildum
fjórðungaskiptum) heldur var bændum frjálst að velja sér goða. Því má
segja að valdaútþenslu goða hafi mátt teygja svo langt sem hesturinn gat
borið hann, og kjörfrelsi bónda takmarkað að sama skapi. Hesturinn var
því ekki bara mikilvægt tákn í táknkerfi tímabilsins né heldur bara þarfasti
þjónninn sem undirstaða samgangna og atvinnutæki. Hann var ómissandi
hlekkur í stjórnkerfi landsins enda hefði uppbygging þess með þessum
hætti verið óhugsandi án hans.
Þegar hugsað er um tengsl manns og hests á þennan hátt og um leið
líkamlega nánd þeirra í kumlinu, sem jafnframt má greina í dýraskreytinu,
er erfitt að ímynda sér að tilviljun hafi ráðið því hvaða dýr fylgdi hinum látna
í dauðanum. Öll umgjörð kumlanna finnst mér stríða gegn þeirri tilgátu
að „af lóga hross“, eða einfaldlega „einn úr hópnum“ hafi verið gripinn til
þessara nota. Eins og ég nefndi hér að framan er ekki hægt að horfa fram
hjá því að kumlhesturinn er einstaklingur. Rétt eins og hinn látni var
kumlhesturinn sýnilegur í gröfinni á meðan á greftrunarathöfninni stóð.
Ef við gefum okkur að nærstaddir ættingjar og vinir hins látna hafi staðið
að greftruninni má jafnframt ætla að viðstaddir hafi þekkt kumlhestinn
líka, nafn hans, persónuleika og lífssögu og jafnframt mögulegan þátt hans
í heiðri og valdi húsbónda síns. Eining þessara tveggja einstaklinga var því
líklega mikilvæg í augum viðstaddra og óumf lýjanleg á dauðadegi. Annað
hefði verið ófullkomið, eins og ófullgerð mynd eða minning.
Íslenskur greftrunarsiður er á margan hátt ólíkur greftrunarsiðum
annarra Norðurlanda. Það er hins vegar ófullnægjandi að túlka hann
sem frávik frá þeim, eins og tíðum hefur verið gert, því þegar betur er að
gáð bera íslensk kuml sterkt stílbragð sjálfstæðs siðar þar sem hesturinn
er skýrasta einkennið og jafnvel þungamiðja þess táknkerfis sem kumlin
tilheyrðu.