Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2010, Page 221
220 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
kínverska listasögu og lærði þá kínversku að marki, enda var hann mikill
tungumálamaður.
Þorkell lauk licencié-ès-lettres prófi frá Sorbonne-háskóla árið 1957.
Er heim kom starfaði hann um hríð við Árbæjarsafn. Gróf hann þá upp
og rannsakaði hluta af tröðunum, sem liggja um Arnarhól, hinni fornu
þjóðleið inn til Reykjavíkur, en réðst síðan brátt til Þjóðminjasafnsins.
Í Þjóðminjasafninu varð starfi hans einkum við fornleifarannsóknir svo
og skráningu safnmuna. Hann rannsakaði á fyrstu árunum þar nokkur
fornkuml sem komu í ljós við framkvæmdir, en árið 1960 var honum
falin rannsókn fornrústa að Reyðarfelli í landi Húsafells í Hálsasveit þar
sem talið er að verið hafi byggð frá landnámsöld og allt fram yfir 1500.
Rannsóknir þar stóðu yfir í allmörg ár og komu þar í ljós greinilegar og
merkar rústir miðaldabæjar og margvíslegar byggðarleifar eldri. Meðal þess
voru baðstofur frá miðöldum og höfðu aðrar slíkar ekki fyrr fundizt hér.
Þorkell gerði ásamt Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi frumrannsóknir á
hinu forna bæjarstæði Reykjavíkur, við vestanvert Aðalstræti. Borkjarnar,
er þeir tóku upp, sýndu gamlar mannvistarleifar og var því talið að þar
mætti finna minjar um forna byggð svo sem ritaðar heimildir bentu til.
Síðar var fornbyggðin við Aðalstræti rannsökuð sem tók mörg ár, komu
þar í ljós hinar alkunnu fornminjar frá landnámsöld Íslands. Tók Þorkell
þátt í þeim rannsóknum framan af.
Aðalstarf Þorkels varð þó brátt munaskráningin, en skráning safngripa
hafði orðið mjög út undan um árabil og mikið safnazt upp af óskráðum
gripum úr safnauka margra ára. Þorkell var þaulsætinn við verk sitt.
Lýsingar hans á gripum voru oft mjög ýtarlegar og nákvæmar og kom
þar víða fram þekking hans á almennri menningarsögu. Þá skrifaði hann
ýmsar fræðilegar greinar um rannsóknir sínar og athuganir, sem f lestar
birtust í Árbók Fornleifafélagsins.
Þorkell var í reynd einfari og hann var ekki margmáll á vinnustað, sízt
um eigin hagi og var á sama hátt óhnýsinn um annarra hagi. Hann hafði
ekki mikil dagleg samskipti við samstarfsmenn fram yfir það sem þurfti.
Nokkru eftir að Þorkell hætti störfum við Þjóðminjasafnið tók heilsu
hans að hraka frekar. Hann lamaðist og var upp frá því bundinn við
hjólastól. Þá f luttist hann í hús Öryrkjabandalags Íslands við Hátún. Naut
hann þar góðs aðbúnaðar og þá tók hann til við hugðarefni sitt að mála
myndir, sem hann hafði nokkuð fengizt við alla ævi, eins að móta myndir í
gifs. Hann hafði sótt námskeið í myndlist og naut hann þá sinnar staðgóðu
þekkingar á listum og listasögu.
Þorkell var ókvæntur og barnlaus.