Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 14
GRIPLA12
ritvillur í kvæðum Jóns Arasonar í 713 girtu fyrir að biskupinn hefði skrifað
það handrit og þá um leið önnur handrit með sömu hendi.18
Í doktorsriti sínu um Jón Arason þótti Páli E. Ólasyni ekki loku fyrir
það skotið að biskup hefði skrifað Margrétar sögu handritið 431 á unglings-
aldri, en taldi það ekki fullvíst. Hin handritin þrjú sagðist hann hins vegar
ekki sjá betur en að þau væru með hendi séra Sigurðar á Grenjaðarstöðum,
sonar Jóns biskups, enda væri sama höndin á þeim og Sigurðarregistri (Bps.
B II,5), en á Sigurðarregistri eru skrár um kirkjueignir í Hólabiskupsdæmi
frá dögum Jóns biskups og eftir hans dag.19
Því fór fjarri að Páll Eggert hefði síðasta orðið um þessi mál. Spurningin
um hugsanlega hlutdeild Jóns biskups Arasonar og séra Sigurðar í bókagerð
á síðustu áratugum kaþólsks siðar í landinu hélt áfram að leita á fræðimenn,
og í Skírnisgrein 1932 tók Jón Helgason efnið til rækilegrar rannsóknar.20
Sem einkunnarorð valdi Jón sér ummæli Árna Magnússonar, sem síðan
hefur oft verið vitnað til: „Svo geingur þad til i heimenum, ad sumer hialpa
erroribus gng, og adrer leitast sidan vid ad utrydia aptur þeim sỏmu
erroribus. Hafa svo hverir tveggiu nockud ad idia.“
Í stuttu máli vóru niðurstöður Jóns Helgasonar þessar: 1o Þrátt fyrir
nokkurn mismun virðast öll handritin fjegur, þ.e.a.s. sögubókin 510,
rímnabókin 604, helgikvæðabókin 713 og Margrétar sögu handritið 431
vera a.m.k. að mestu leyti með sömu hendi. 2o Af 431 er helst að ráða að
skrifari þess hafi heitið Jón Arason, en hins vegar virðist sem skrifari
604 hafi heitið Tómas, og í 510 koma bæði nöfnin, Jón Arason og Tómas
Arason, fyrir í utanmálsgreinum, sumpart skrifuð aftur á bak og sumpart
með villuletri; auk þess kemur ‘séra Ari’ við sögu í spássíugreinum í 604.
3o Loku er fyrir það skotið að þessi handrit séu skrifuð af Jóni biskupi
Arasyni ellegar Sigurði syni hans.
Þessar niðurstöður Jóns Helgasonar hafa staðið síðan — nema sú
fyrsta — og rithönd Jóns biskups er enn jafn-ókunn og hún var áður en
Guðmundur Þorláksson taldi sig hafa fundið hana 1878.
„Smiðshöggið væri rekið á þessa rannsókn, ef unnt væri að finna þá
18 Jón Arasons religiøse digte, útg. Finnur Jónsson, Det Kongelige Danske Videnskabernes
Selskab. Historisk–filologiske Meddelelser II, 2 (København: Høst, 1918), 16.
19 Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. I. bindi. Jón Arason
(Reykjavík: Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, 1919), 443–45.
20 Jón Helgason, „Nokkur íslenzk handrit frá 16. öld,“ Skírnir 106 (1932): 143–68.