Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 241
239
Worm virðist fyrst geta þess í bréfinu til La Peyrère 3. desember 1646
að Stefán Ólafsson sé fús til þess að fara til Frakklands, en nefnir þessa
tillögu ekki í bréfinu til La Thuillerie sem skrifað er sama dag. Svo virðist
sem þetta mál hafi verið rætt í Höfn nokkurn tíma áður en Worm hreyfir
því við vin sinn, La Peyrère. Stefán Ólafsson skrifar í bréfi til biskups
5. maí 1646, þ.e. sjö mánuðum áður en Worm nefnir fyrst að Stefán sé
fús til að fara til Parísar, að hann sé að skrifa upp og þýða Eddu í nafni
franska sendiherrans og að sér bjóðist styrkur til að takast á hendur ferð
til Frakklands. Mætti ætla að Hennequin sendiherra Frakka í Höfn hafi
komið meir við sögu þessa máls en fram kemur í bréfum Worms.
Seinasta bréf frá La Peyrère á árinu 1646 er dagsett í París 12. desember
1646. Þar segir hann að Naudé bókavörður sé ekki enn kominn úr ferð til
Sviss og Þýskalands, þar sem hann hafi verið að safna bókum fyrir bókasafn
kardínálans. La Peyrère heldur áfram: „Okkar víðkunni La Thuillerie hefur
afhent Kardínálanum stóran bókakassa fullan af hlutum frá Norðurslóðum
yðar … Á hverjum degi er von á hr. Naudé sem á að opna kassann og taka
upp bækurnar og koma þeim fyrir. Á sama tíma mun ég skrifa þér hvað
er í ráði með uppskriftina af Eddu og hinn lærða Íslending sem vann það
verk. Hann getur treyst því að hann hafi ekki unnið til einskis. Á meðan
bið ég þig að varðveita uppskriftina hjá þér með sömu umhyggju og þitt
eigið frumrit.“21 Líklegt er að La Peyrère hafi ekki verið búinn að fá bréf
Worms frá 3. desember 1646 þegar hann skrifar vini sínum 12. desember
sama ár. Hann svarar þar ekki tillögu Worms um för Stefáns til Parísar,
sbr. ummæli hans um hinn lærða Íslending: „ ... hann getur treyst því að
hann hafi ekki unnið til einskis.“
Fyrsta bréf La Peyrère til Worm árið 1647 er dagsett í París 1. janúar.
Þar segir að Naudé sé kominn til Parísar fyrir þremur dögum en La
Peyrère hafi ekki enn náð tali af honum en við hann þurfi hann margt að
ræða og nefnir meðal annars viðvíkjandi Íslendingnum Sueno (sic) að „um
21 „Illustriss. Dn. Noster de la Thuillerie, capsam librorum prægrandem, ex vestro Septentrione
auctam, Eminentissimo Cardinali obtulit. ... Exspectatur indies Dn. Naudeus, qui capsam
frangat, ut libros edat & ponat ordine. Scribam ad te eodem tempore quid facto sit opus
Eddæ exscriptæ, nec non docti illius Islandi, qui illam exscripsit; quod non temere, neque
in vanum, factum ab illo, sibi persuadeat. Serva interea apud te, quæso, apographum hoc,
imo curiose æque atque tuum autographum.“ Epistolæ II, 942; Breve III, nr. 1470, 225
(Schepelern þýðir: „opbevare Afskriften hos dig og det med lige saa stor Omhu som din
egen Original“). Óljóst er hvað La Peyrère á við.
„EN HVERNIG SEM ALLT FER ...“