Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 23
21
næst á undan, og stafsetning er ofurlítið dönskuskotin, en samkenni eru
svo veruleg að skrifari er að öllum líkindum sá sami.
Segja má að í rauninni kunni Ari lögmaður allt eins að vera skrifari þess-
ara fimm bréfa og þeirra þrettán sem áður var fjallað um, en þess er þó að
gæta að ekkert þessara bréfa fjallar um persónuleg málefni Ara, andstætt
því sem var um nokkur hinna þrettán. Ég tel því minni líkur á að Ari hafi
skrifað þessi fimm bréf, en trúlegra að ókunnur biskupsritari hafi haldið
þar á penna.
Nú eru ótalin níu þeirra bréfa sem Ari kemur við, og er skemmst
frá því að segja að þau eru með a.m.k. sex mismunandi rithöndum, og í
engu tilviki eru fleiri en tvö með sömu hendi. Sumar þessara handa verða
fundnar á öðrum bréfum í kringum Jón biskup.
Hér verður farið fljótt yfir sögu, og aðeins vikið að tveimur þessara
bréfa.
Annað þeirra, DRA Isl. nr. 28 [DI X, 627–28], er í Fornbréfasafni talið
vera með hendi Ara, en það er sendibréf til Kristófers hirðstjóra Hvitfeldt
þar sem Ari segist senda honum reikningsskap og lýsir því að hann vilji
‘ekki lengur vera lögmaður’. Undir bréfinu stendur nafn Ara með sömu
hendi og bréfið sjálft, og án efa hefur það af þeirri ástæðu verið talið eig-
inhandarbréf, en eiginhandaundirskriftir í nútímaskilningi eru ekki farnar
að tíðkast á þessum tíma, svo að af nafni undir bréfi verða engar ályktanir
dregnar um ritara þess; það er innsigli sem gildir. Bréf Ara er ódagsett,
en Jón Þorkelsson hefur í Fornbréfasafni ætlað það skrifað 27. júní 1541,
sama dag og Ari ritar alþingi bréf um að hann hafi sótt um lausn frá lög-
mannsembætti til konungs, DRA Isl. nr. 24 [DI X, 626–27], en bréfið til
alþingis er með allt annarri hendi en bréfið til Hvitfeldts, sem hins vegar
er greinilega með sömu hendi og bréf Jóns Arasonar til Kristjáns konungs
Friðrikssonar 30. júlí 1542, DRA Isl. nr. 27 [DI XI, 155–56], og undir því
bréfi stendur ‘Jón með guðs þolinmæði biskup á Hólum í Íslandi’, og sýnir
það hve lítið gagn er í undirskriftum bréfa á þessum tíma til ákvörðunar
rithanda, en undirskriftir eru reyndar fátíðar þá. Þessi tvö bréf eru með
nýtískulegu handarlagi sem er að ryðja sér til rúms í kringum siðbreyt-
inguna, og þau eru ólík öðrum bréfum sem Ari kemur við — nema einu.
Þetta eina bréf er eitt af jarðakaupabréfum Ara, AM Fasc. L,15 [DI XI,
266–67], gert í Möðrufelli 1543, og það er vafalítið skrifað af sama manni
og bréf Ara til Hvitfeldts og bréf biskups til konungs.
BÓ KAGERÐ ARA LÖ GMANNS JÓ NSSONAR