Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 21
19
jafnframt einkenni eldri og yngri bréfa eins og forlíkunarbréfið sem nefnt
var áðan (B5).
B8. Úrskurður Jóns biskups um rekaítak Laufáskirkju, kveðinn upp
á Hrafnagili 1. okt. 1546 og bréfaður á Möðruvöllum í Eyjafirði þremur
nóttum síðar, AM Fasc. LI,3 (nú í Þjskjs. Ísl.) [DI XI, 502–503]. Þetta bréf
er áþekkast Auðkúlubréfi Ara 1543 (A4), en þar bregður jafnframt fyrir
fáeinum einkennum transskriftarbréfsins 1544 (A5).
Auk þessara átta bréfa má nefna þrjú frá árunum 1539–49, sem bera
nokkurn keim af hinum, AM Fasc. XLIX,19 [DI X, 416–17], AM Fasc.
XLVII,26 [DI X, 720] og AM Fasc. LI,22 [DI XI, 727–29]. Þau eru þó
varla með sömu hendi og hin bréfin, nema þá helst bréfið frá 1549, en það
er svo illa farið að torvelt er að skoða skriftina. Það er tylftardómur klerka
um villumenn, nefndur á Þingeyrum af Jóni biskupi.
Niðurstaða þessa samanburðar er þá sú að þrettán bréf, skrifuð á
tímabilinu 1528–46, muni vera skrifuð með einni og sömu hendi. Ari
lögmaður kemur aðeins við fimm þessara bréfa beinlínis, en óbeinlínis
við tvö til viðbótar. Jón biskup faðir hans kemur við níu bréfanna, en
varla hefur hann skrifað bréf sín sjálfur og alls ekki eyfirsk bréf á ýmsum
árstímum. Auk þeirra feðga koma 45 menn við þessi bréf, 38 þeirra
aðeins einu sinni hver, sex tvisvar og einn þrisvar, Björn Þorvaldsson lög-
réttumaður á Æsustöðum í Eyjafirði. Engar líkur eru þó á að Björn hafi
verið biskupsritari á Hólum 1528 og síðar, þó ekki sé nema aldurs vegna;
hann er ættleiddur af föður sínum 1529.
Ellefu þeirra þrettán bréfa sem hér hafa verið talin með sömu hendi
varða Jón biskup og Ara lögmann, annanhvorn eða báða, og þrjú þeirra
hafa einmitt að geyma ráðstafanir biskups til fremdar sonum sínum, Ara
og Magnúsi. Þau tvö bréf sem hvorki varða Ara né Jón eru bæði gerð í
Eyjafirði í næsta nágrenni við heimili Ara lögmanns í Möðrufelli. Öll hin
bréfin sem Ari kemur ekki við sjálfur, nema úrskurður Jóns biskups á
Möðruvöllum 1546, eru skrifuð á Hólum, og ekki verður í fljótu bragði séð
neitt sem mælir gegn því að Ari hafi verið þar staddur þegar þau vóru gerð.
Það væri helst dómsbréfið um Glaumbæ 22. nóv. 1540, því að Ari nefndi
í dóm í Spjaldhaga í Eyjafirði 22. okt. sama ár, en reyndar er dagsetning
dómsbréfsins um Glaumbæ ofurlítið tortryggileg af öðrum ástæðum.30
30 Hér hefur Stefán skrifað innan sviga „sbr. 57. nmgr.“ en mér hefur ekki tekist að finna þá
heimild sem hann vísar til. – SÓ.
BÓ KAGERÐ ARA LÖ GMANNS JÓ NSSONAR