Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 257
255
Ekki er ólíklegt að Andrés Guðmundsson sé einmitt faðir Guðmundar
en ættir hans eru ókunnar. Sömuleiðis er nafn móður og systur Guðmundar
óþekkt og óljóst er hvort hann hafi átt fleiri systkini. Guðmundur hefur
sjálfsagt talist ættsmár og því ekki ratað inn í ættartölubækur nema í
framhjáhlaupi.25 Hugsanlega mætti þó komast á snoðir um ættir hans með
því að gaumgæfa ættir séra Gísla Brynjólfssonar á Bergstöðum nánar en
mér hefur tekist að gera. Hann var vinveittur Guðmundi og gaf honum
vitnisburð sinn en þar að auki kemur Guðmundur við sögu í tveimur
skjölum er snerta séra Gísla. Annars vegar sem vottur ásamt föður sínum
að ofangreindum landamerkjavitnisburði sem séra Gísli stóð fyrir. Hins
vegar sem vottur að kaupbréfi sem gert var í Goðdölum þann 20. maí 1639
þar sem séra Gísli stendur í jarðakaupum.26 Svo virðist því sem að þeir hafi
þekkst áður en Guðmundur flyst búferlum yfir í Húnavatnssýslu.
4. Námsárin á Hólum
Guðmundur víkur gjarnan að eigin fátækt og ættsmæð í bréfum sínum og
ritsmíðum. Það mætti því ætla að hann hafi ekki getað vænst þess að fá
tækifæri til að stunda nám við Hólaskóla nema á fullri ölmusu. Líkast til
hefur sóknarprestur Guðmundar komið auga á gáfur hans, e.t.v. átt þátt í að
búa hann undir skóla og jafnframt ýtt á að hann yrði tekinn inn í skólann
sem ölmusupiltur. Sólheimar áttu kirkjusókn að Glaumbæ en Sæmundur
25 Ættartölubók séra Þórðar Jónssonar í Hítardal er ekki til í frumriti en í því afriti sem talið
er næst því sem séra Þórður lét frá sér fara virðist ekki minnst á Guðmund, sbr. AM 258
fol., bls. 768. Í því eintaki af ættartölubók séra Þórðar sem Brynjólfur biskup Sveinsson
lét séra Jón Erlendsson í Villingaholti skrifa upp fyrir sig árið 1666 er hins vegar að finna
sömu setningu og í AM 258 fol., bls. 768 nema þar hefur verið prjónað aftan við hana.
Setningin er svohljóðandi: „Jón Oddsson, stúderaði utanlands og andaðist þar Anno 1630,
átti eitt launbarn Sigríði, giftist Ólafi Fúsasyni, dó barnlaus, hana vildi hafa átt Guðmundur
Andrésson.“, Lbs 42 fol., bls. 322. Um ættartöluhandritin, sjá Guðrún Ása Grímsdóttir,
„Fornar menntir í Hítardal.“, bls. 44. Þrátt fyrir að Guðmundur hafi skrifað séra Þórði í
Hítardal og beðið hann um að verja sig ef hann yrði kærður fyrir höfuðsmann vegna skrifa
sinna um Stóradóm, sbr. Guðmundur Andrésson, Deilurit, bls. xiii, þá getur séra Þórður
hans ekki í ættartölubók sinni en ástæðan er líkast til sú að Guðmundur var af lágum stigum
eins og hann minnist gjarnan á í skrifum sínum.
26 Guðmundur Andrésson, Deilurit, bls. 153; ÞÍ. Rtk. I.4. Jarðabókarskjöl 1700–1704, 3.
Húnavatnssýsla, nr. 19.
HÖFUÐDRÆTTIR ÚR BROTAKENNDRI ÆVI