Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 275
273
uðu. Þar stendur: „En um þetta rúnaletur að skrifa merking orðsins eður
myndir stafanna kann enginn betur að gjöra en sá loflegi og nafnfrægi
doktor Olaus Worm gjört hefur sem hans bók glöggvast greinir og þeir
mega skilja og skynja er latínumálið kunna, þó sú bók sé mér ekki skilj-
anleg fyrir minna vankunninda sakir…“72 Sjá má af ritgerðinni að Björn
hefur þó haft einhverja hugmynd um hvað stóð í bókinni því á einum stað
segir hann: „En eftir þessum myndum málrúnanna sem svo þrískiptast eru
geysimörg stafróf tekin, svo sem og þeirra nöfn allmargra standa í rúnabók
þess virðulega doktor Ólafs Worm.“73
Af ofansögðu er ljóst að til þess að geta haft gagn af bók Worms hefur
Björn þurft aðstoð. Óvíst er hvenær Guðmundur fluttist í Húnavatnssýslu.
Fyrstu ummerki um hann þar er áðurnefndur landamerkjavitnisburður
frá 10. júní 1644 og svo frillulífisbrotið sem komst upp um einhvern
tíma á reikningsárinu 1644–1645. Ritgerð Björns er frá árinu 1642 og
því ekki óhugsandi að Guðmundur hafi verið honum innan handar með
latínuna. Þessu til frekari stuðnings er póstur úr oftnefndu höfuðlausn-
arbréfi Guðmundar til Worms. Þar segist Guðmundur hafa séð fjögur af
útgefnum ritum hans og að ólatínulært fólk hafi nýtt latínukunnáttu sína
til þess að miðla sér efni þeirra.74
Til voru a.m.k. fjögur eintök af riti Worms um rúnir í landinu en þau
hafði hann gefið íslenskum heimildarmönnum sínum og lét fylgja bréfum
til þeirra skrifuðum í aprílmánuði 1637. Þeir sem fengu eintak af bókinni
voru Þorlákur biskup, Arngrímur lærði, Gísli biskup Oddsson og séra Jón
Magnússon í Laufási en fósturfaðir hans, séra Magnús Ólafsson, hafði
verið duglegur við að aðstoða Worm á ýmsa vegu. Án efa hefur Brynjólfur
biskup einnig átt eintak þótt þess sjáist ekki merki í skrá yfir bækur hans á
grísku og latínu frá árinu 1674 enda er hún tæpast tæmandi.75
Að lokum skal þess getið að Björn á Skarðsá lýkur rúnaritgerð sinni með
72 Lbs 1199 4to, bl. 81v.
73 Lbs 1199 4to, bl. 84r, sjá einnig bl. 89r. Jafnframt er að finna eina setningu á latínu sem
Björn hefur þurft aðstoð við að skilja til að geta staðsett hana réttilega í ritgerð sinni, sbr.
Lbs 1199 4to, bl. 83r.
74 Breve fra og til Ole Worm III, bls. 392. Við þetta má bæta að Árni Magnússon segir
að frásögn af flótta Sæmundar fróða frá meistara sínum, sem sé að finna í skýringum
Guðmundar á Völuspá og í inngangi að orðabók hans, sé runnin beint frá rúnaritgerð
Björns á Skarðsá, sbr. Munnmælasögur 17. aldar, bls. xcviii.
75 Breve fra og til Ole Worm II, bls. 6–9; Jón Helgason, „Bókasafn Brynjólfs biskups.“, bls.
140.
HÖFUÐDRÆTTIR ÚR BROTAKENNDRI ÆVI