Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 196
GRIPLA194
(1599–1668), en tvö rit eftir hann um skáldskaparfræði komu út á 17. öld,
Synopsis Prosodiæ Danicæ 1650 og Prosodia Danica 1671,4 og að lokum
Svíann Andreas Arvidi (um 1620–1673), með Manuductio Ad Poesin
Svecanam, sem prentuð var 1651,5 svo að nokkrir séu nefndir.
Ekki er rúm í þessum inngangi fyrir ítarlega greinargerð um evr-
ópska skáldskaparfræði frá tíma endurreisnar og barokks, en mun fleiri
rit af þessu tagi voru samin en hér eru nefnd, sum prentuð en önnur
varðveitt í handskrifuðum bókum. Sjónum verður á hinn bóginn beint
að þætti Íslendinga í ritun skáldskaparfræða á sautjándu öld. Íslendingar
áttu vitaskuld sína Snorra-Eddu til að hampa í þessu tilliti, og var hún
skrifuð upp, úr henni unnið, gerðar við hana skýringar og hún þýdd á lat-
ínu og dönsku. Þekktustu verkin af þessu tagi eru án efa Laufás-Edda séra
Magnúsar Ólafssonar (um 1573–1636), en hann er talinn hafa unnið að
henni á fyrsta áratug sautjándu aldar (Faulkes 1979 I:15),6 og Samantektir
um skilning á Eddu eftir Jón Guðmundsson lærða (1574–1658), sem munu
vera samdar árið 1641 (Einar G. Pétursson 1998 I:19).7 Þessi tvö rit eru
t.d. nefnd í kafla um íslenska höfunda ritgerða um skáldskaparfræði í bók
Árna Sigurjónssonar, Bókmenntakenningar síðari alda (1995:121–124), sem
hin einu á þessu sviði frá 17. öld. Árni telur að lítið sé til „íslenskra rita frá
17. öld þar sem vikið er að skáldskap“ (s. 121) og enn fremur að „skáldskap-
arfræði okkar ― skrif og hugmyndir um eiginleika skáldskapar ― [sé] í
lágmarki á 17. öld“ (s. 124).
Ritgerðir um íslenskar bókmenntir frá þessum tíma eru þó fleiri en
kemur fram í ofannefndu riti. Hér má t.d. nefna formála Guðbrands bisk-
ups Þorlákssonar fyrir sálmabókinni 1589 en þar er nokkuð fjallað um bók-
menntir og viðhorf til þeirra.8 Einnig má nefna kafla í Íslandslýsingu þeirri
(Qualiscunque Descriptio Islandiae) sem kennd hefur verið Oddi Einarssyni
biskupi og fjallar um íslenskar bókmenntir og bókmenntaiðkun í land-
4 Bæði þessi rit voru endurútgefin um miðja 20. öld í einu bindi: Danske metrikere II. 1954.
Útg. Arthur Arnholtz og Erik Dal. J.H. Schultz forlag, Kaupmannahöfn.
5 Hún var endurútgefin nýlega: Andreas Arvidi. 1996. Manuductio Ad Poesin Svecanam, Thet
är/ En kort Handledning til thet Swenske Poeterij/ Verß- eller Rijm-Konsten. Útg. Mats Malm.
Svenska författare utgivna av Svenska Vitterhetssamfundet. Ny serie. Stokkhólmur.
6 Snorra-Edda í latneskri þýðingu Magnúsar var prentuð í Kaupmannahöfn 1665.
7 Fyrra ritið gaf Anthony Faulkes út 1979 en hið síðara Einar G. Pétursson 1998.
8 Séra Magnús Guðmundsson prófastur gaf formálann út með nútímastafsetningu í 2. hefti
Kirkjuritsins 1972.