Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 290
GRIPLA288
Í þessu tilviki eru slík rök góð og gild þar sem slík samræmi og claritas-
fagurfræðihugsun hefur tekið sér bólfestu í skáldinu, og hlýtur það að gilda
um hljómfall ekki síður en myndmál og líkingar. Slíkum rökum væri hins
vegar erfiðar að beita á ómstríðar vísur elstu skálda. Og hér mætti finna
merkingarleg rök á móti fagurfræðirökunum, t.d. í 10. vísu Geisla, þar sem
skáldið biður sinn drottin um ‘orðgnótt’, sem væri hliðstætt ákall og í ‘orð
ok bœnir’. Í athugasemdunum neðan við hverja vísu (Notes) eru færð rök
fyrir vali leshátta, þó sumt sé ósagt látið eins og vera ber. Til dæmis nefnir
Chase ekki bestu merkingarlegu rökin fyrir leshættinum ‘óð’ sem finna má
í lokavísu Geisla, þar sem skáldið talar um bœnir og mærð, sem skilja má í
gagnkvæmu samhengi við fyrstu vísu (symmetry).
Neðan við hverja vísu er síðan texti vísunnar settur fram í venjulegri
(FSA) orðaröð. Hér má ekki heldur gleyma huglægni textafræðingsins, sem
getur t.d. legið í því hvernig hann velur að taka saman kenningar og setn-
ingar vísunnar, en enn og aftur vex þetta vandamál eftir því sem kvæðin
eru eldri og „ónáttúran“ meiri.
Þessu næst er að finna enska þýðingu á vísunni, og í því tilviki er um
gagngera framför að ræða er kemur að kenningunum, því í þessari útgáfu
hafa ritstjórar valið að þýða sjálfa kenninguna (þ.e. stofn- og kenniorð), og
þessu næst gefa upp táknmið kenningarinnar með blokkbókstöfum, frá
þrengsta merkingarsviði til þess víðasta, svo sem í kenningu Einarrs (Geisl
16): stríðandi látrs ins døkkva hrøkkviseiðs lyngs: „the enemy of the lair of the
dark coiling fish of the heather [SNAKE > GOLD > GENEROUS MAN]“
(bls. 20). Hér er vert að staldra við til að gera grein fyrir framfaraskrefinu
sem í þessu felst.
Það er óumflýjanleg staðreynd að margir í þeim breiða hópi sem hafa
notast og munu notast við útgáfur dróttkvæða, verða af illri nauðsyn að
treysta á þýðingar vísnanna. Í slíkum tilvikum segir sig sjálft að þýðingin
þarf að vera sem nákvæmust. Þar sem orð A. E. Housmans: „Poetry is not
the thing said, but a way of saying it“ gilda jafnt um dróttkvæði sem annan
skáldskap (kannski sér í lagi um dróttkvæði!), þá er ljóst að skáldlegt gildi
dróttkvæðanna (a way of saying it) liggur í kenningum þeirra. Í kenning-
unum er líkingar og myndmál skáldanna að finna. Sökum þess að ákveðin
formúlusýn á kenningar hefur verið ráðandi gegnum tíðina, þar sem kenn-
ingar eru, með orðum Finns Jónssonar „ret tilfældige prydelser“ (1920:
389), var oftast látið nægja að þýða táknmið kenningarinnar: „Det fore-