Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 264
GRIPLA262
6. Djáknatíð
Samkvæmt norsku kirkjuordinansíunni, sem Íslandi var gert að fara eftir
með konungsbréfi 29. nóvember 1622, var sóknarpresti heimilt að „kjósa
og kalla sér“ djákna. Kosningin var háð samþykki prófasts og sex helstu
manna innan sóknarinnar. Að þeirra samþykkt fenginni þurfti biskup
að leggja blessun sína yfir djáknaefnið, gaumgæfa vitnisburði hans úr
latínuskólanum, reyna skilning hans á katikismusnum og söngkunnáttu
bæði á latínu og íslensku.44 Sóknarpresturinn í tilviki Guðmundar var séra
Hallgrímur Jónsson í Glaumbæ og hefur Þorláki biskupi verið manna best
kunnugt um lærdóm og hæfni Guðmundar í stöðuna.
Árni Oddsson lögmaður fékk Reynistaðarklaustur eftir dauða Jóns
Sigurðssonar sýslumanns sem lést 26. maí 1635. Hann bjó ekki á Reynistað
heldur á Leirá í Borgarfirði, enda lögmaður að sunnan og austan, og hélt því
ráðsmann til að sjá um rekstur klaustursins fyrir sig. Hallgrímur Jónsson,
kirkjuprestur að Reynistað frá 1632, mun hafa gegnt því starfi, jafnvel eftir
að hann fékk veitingu fyrir Glaumbæ og fluttist þangað. Klausturvaktarar
voru hins vegar þeir Benedikt Björnsson frá Bólstaðarhlíð og eftir hann
Benedikt Halldórsson lögmannssonur og sýslumaður í Skagafirði og munu
þeir hafa búið á Reynistað.45
Alls óljóst er hvenær Guðmundur tók við stöðu djákna á Reynistað.
Jakob Benediktsson taldi dauða Sæmundar Kárssonar prófasts að Glaumbæ,
þann 19. júlí 1638, hafa orðið til þess að staðan losnaði. Í kjölfarið var séra
Ólafur Jónsson að Miklabæ kosinn prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi
og séra Hallgrímur tók við Glaumbæ. Við það losnaði embætti kirkjuprests
44 Lovsamling for Island I, bls. 206–208; Ein kirkju ordinansia, kver h, bl. 2a.
45 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár I, bls. 64 og 126, II, bls. 282–283 og III, bls. 257–258.
Hjá Páli Eggerti kemur fram að Jón hafi haldið klaustrinu jafnan eftir að hann fékk veitingu
fyrir því 1607 en að Árni hafði tekið við því 1634, sbr. Íslenzkar æviskrár I, bls. 64 og III, bls.
257. Í AM 216cβ 4to, bl. 22v, kemur fram hverjir héldu Reynistaðarklaustur og hverjir voru
ráðsmenn og vaktarar þess og þar segir að Árni hafi fengið lénið 1634 og haldið því í 31 ár. Í
leyndarskjalasafni Dana er að finna skjöl er varða Reynistaðaklaustur, m.a. óársetta jarðabók
yfir klausturjarðirnar þar sem skrifarinn, Páll Gíslason, segir og Árni staðfestir með því
að setja nafn sitt undir að jarðabókin sé rétt skrifuð eftir jarðabók sem lögmaðurinn Árni
Oddsson hafi fengið frá erfingjum Jóns sáluga Sigurðssonar, sbr. ÞÍ. Skjöl úr leyndarskjala-
safni Dana 4. Suppl. II, nr. 46. Fyrst Árni hefur fengið skjöl klaustursins hjá erfingjum Jóns
en ekki frá honum sjálfum hefur Jón að öllum líkindum haldið klaustrinu til dauðadags en
ártalið 1634 mætti því skýra þannig að þá hafi Árni fengið vonarbréf fyrir klaustrinu.