Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 238
GRIPLA236
bréfi gefa þau mér sjálfkrafa leyfi í nafni heilagrar þrenningar til að fara
til Frakklands“. Með því að þýða animum með „hugur“ í stað „hughvarf“
hverfur ósamræmið í orðum Stefáns í þýðingunni. Á það má benda að síðar
í sama bréfi þýðir Jón animum með „hug“. Úr því að „hughvarf“ Stefáns
Ólafssonar reynist vera röng þýðing, hvernig stóð þá á því að ekkert varð
af Frakklandsför hans? Og hver var aðdragandi þessa máls?
II
Haustið 1645 getur danski læknirinn og fræðimaðurinn Ole Worm þess
í bréfi til Gabriels Naudé, bókavarðar Mazarins kardínála, að ungur
Íslendingur hafi verið ráðinn til að skrifa upp Eddu eftir eintaki Worms og
þýða á latínu.11 Gabriel Naudé var lærður læknir (þekktur fyrir rit sitt Advis
pour dresser une bibliothéque, 1627) sem Mazarin kardináli hafði falið það
verkefni að safna bókum í hið mikla bókasafn sitt sem hann ákvað að opna
almenningi árið 1643. Kardínálinn hvatti auk þess sendifulltrúa Frakka
erlendis til að láta Naudé í té verðmætar bækur og rit.12 Íslendingurinn
ungi sem Worm nefnir í bréfinu til Naudé var Stefán Ólafsson, skáld
og síðar prestur í Vallanesi. Hann hafði útskrifast úr Skálholtsskóla árið
1642 en verið skrifari Brynjólfs biskups Sveinssonar veturinn 1642–1643.
Stefán hélt utan til náms haustið 1643 og var innritaður í Hafnarháskóla
7. desember 1643. Valdi hann Ole Worm sem umsjónarkennara eins og
nokkrir landa hans höfðu áður gert.
Aðdragandi bréfaskriftanna milli Worms og Naudé voru kynni Worms
og Gaspard Coignet de la Thuillerie, sendiherra Frakka í Hollandi, sem
falið var að koma á friði milli Dana og Svía árið 1644. Friður var saminn í
Brömsebro 25. september 1645. Í fylgdarliði La Thuillerie var fræðimað-
urinn Isaac de la Peyrère, sem samdi rit um Ísland og Grænland (Relation
de l’Islande, ritað 1644, pr. 1663; Relation du Groenland, pr. 1647) og studd-
ist m.a. við upplýsingar frá Worm.13 Virðist hafa tekist góð vinátta með
þeim La Peyrère og Worm. Fyrir áeggjan La Thuillerie skrifaði Worm
11 Worm til Naudé, 28. 10./9.11. 1645. Breve, III, nr. 1359, 136–137; farið er eftir tímasetn-
ingum í Breve.
12 Sbr. François-Xavier Dillmann, „Frankrig og den nordiske fortid – de første etaper af
genopdagelsen“. The waking of Angantyr. The Scandinavian past in European culture, ritstj. Else
Roesdahl og Preben Meulengracht Sørensen (Aarhus: Aarhus University Press, 1996), 16.
13 Sbr. bréf Peyrère 7. apríl 1645 (Epistolæ II, 920). Um rit Peyrères um Ísland, sjá Sumarliði
Ísleifsson, Ísland – framandi land (Reykjavík: Mál og menning, 1996), 65–66.