Gripla - 20.12.2008, Blaðsíða 274
GRIPLA272
Athyglisvert er að þegar Páll Vídalín lögmaður tekur orðið jálkur fyrir í
orðaskýringum sínum þá segist hann hvergi finna í gömlum lögum, hvorki
íslenskum né norskum, þessa skilgreiningu á orðinu. Hann segist þó hafa
leitað víða og borið málið m.a. undir Árna Magnússon. Þess vegna telur
hann að Björn hafi farið eftir þvældri og ellilegri Búalagaskræðu sem hafi
þó innihaldið unga gerð laganna.69 Páll hefur vafalaust rétt fyrir sér því að
í ungri gerð Búalaga, sem varðveitt er í handritum frá seinni hluta 17. aldar
og fyrri hluta 18. aldar, segir: „Jálkur er hestur kallaður frá því hann er átján
vetra.“70 Þessi klausa úr Búalögum er bersýnilega náskyld heimild Björns
á Skarðsá þó að þeim beri ekki nákvæmlega saman um aldur jálksins. Það
er því ekki ólíklegt að Guðmundur styðjist við orðaskýringar Björns og er
það í raun og veru líklegra heldur en að þeir notist við sameiginlega heimild
sem Páll Vídalín gat hvorki fundið tangur né tetur af í byrjun 18. aldar.
Hvort aðstoðin hafi verið gagnkvæm er erfitt að fullyrða nokkuð um
en þó eru vísbendingar sem gætu bent til þess. Árið 1642 lauk Björn við
ritgerðina Nokkuð lítið samtak um rúnir sem samin var að beiðni Brynjólfs
biskups Sveinssonar er hafði áform uppi um að semja rit um forna siði og
átrúnað Norðurlandamanna. Líklegt er að beiðni biskups hafi verið í fyr-
irspurnarformi og að hann hafi einkum fýst í fróðleik sem ekki var að finna
í höfuðriti Worms sem kom út árið 1636 og bar, í íslenskri þýðingu, heitið:
Rúnir, eða hinar elstu dönsku bókmenntir, almennt nefndar hinar gotnesku, eða
til fyllingar þess sem þar stóð.71
Björn hefur því þurft að hafa einhverja hugmynd um hvað stóð í bók-
inni en til þess skorti hann latínukunnáttu. Það viðurkennir hann berum
orðum í þriðja kafla ritgerðarinnar, sem fjallar um hvaða letur æsir not-
orðaskýringanna. Guðmundur hefur því getað nýtt sér þær þegar hann samdi orðabók sína
en talið er að hann hafi samið hana fyrir hvatningu Worms, sbr. Gísli Baldur Róbertsson,
Birtu brugðið á dimm fornyrði lögbókar, bls. 77–81; Guðmundur Andrésson, Deilurit, bls.
xviii–xx.
69 Páll Vídalín, Skýríngar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, bls. 254–255.
70 Búalög, bls. 207. Í annarri ungri gerð laganna, í handriti með hendi Þórðar Henrikssonar
á Innrahólmi frá 1641, er aldur jálks ekki tilgreindur þó ljóst sé af textanum að hann muni
vera eldri en fimm vetur, sbr. bls. 178.
71 Einar G. Pétursson, Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I, bls. 21 og 36–39; Halldór Her-
manns son, „Ole Worm.“, bls. 51. Ritgerð Björns er ekki til í frumriti en elstu uppskrift
hennar er að finna í Lbs 1199 4to gerð af Hákoni Ormssyni um 1646 að öllum líkindum
fyrir Brynjólf biskup Sveinsson. Hákon var ráðsmaður Skálholtsskóla frá 1645–1653, sbr.
Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins I, bls. 468; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár
II, bls. 234.