Gerðir kirkjuþings - 1991, Page 197
8. gr.
Þeim sem kosningarrétt hafa til kjörs hlutaðeigandi biskups er heimilt að tilnefna
biskupsefni. Þeir sem standa að tilnefningu skulu eigi vera færri en 10 af hundraði og
eigi fleiri en 25 af hundraði þeirra sem eru á kjörskrá. Hveijum manni er eigi heimilt
að tilnefna nema eitt biskupsefni.
Tilnefningum skal skila í hendur kjörstjórnar ásamt skriflegu samþykki biskupsefnis.
9. gr.
Nauðsynleg kjörgögn eru:
1. Kjörseðill með árituðum nöfnum þeirra biskupsefna, sem tilnefnd hafa verið
og að auki auðri línu fyrir þá sem vilja kjósa annað biskupsefni en tilnefnt er.
2. Umslag fyrir kjörseðil.
3. Eyðublað fyrir yfirlýsingu kjósanda um, að hann hafi kosið.
4. Umslag áritað til kjörstjórnar. Á umslagi skal koma fram fyrir hvaða tíma
kjörgögn skulu hafa borist kjörstjórn.
Kosning fer þannig fram, að kjósandi setur kross framan við nafn þess biskupsefnis,
sem hann kýs eða ritar nafn annars í auðu línuna. Hann skal hvorki undirrita né
auðkenna með öðrum hætti kjörseðil eða kjörseðilsumslag. Kjósandi lætur seðilinn í
kjörseðilsumslagið og lokar því. Hann útfyllir eyðublaðið og leggur öll gögnin í áritaða
umslagið. Það skal sent kjörstjórn í ábyrgðarpósti.
10. gr.
Kærur út af kosningu skulu hafa borist kjörstjórn innan viku frá því, er fresti lauk
til að skila atkvæðaseðlum og úrskurðar kjörstjórn þær. Að svo búnu telur kjörstjórn
atkvæði og úrskurðar þau, nema kosning sé úrskurðuð ógild. Úrskurði kjörstjórnar má
skjóta til kirkjumálaráðherra innan viku frá því, að hann gekk og leysir hann úr málinu
til fullnaðar.
11. gr.
1. Nú er aðeins einn maður tilnefndur og er hann þá rétt kjörinn biskup án
atkvæðagreiðslu og skal veita honum embættið.
2. Sá er rétt kjörinn biskup sem fær flest atkvæði enda nái þau 50 af hundraði
greiddra atkvæða. Nái enginn 50 af hundraði greiddra atkvæða eða falli atkvæði
jöfn, skal endurtaka kosninguna milli þeirra er flest fengu atkvæði, þó ekki fleiri
en tveggja, nema atkvæði hafi fallið jöfn. Sá er rétt kjörinn biskup sem fær flest
atkvæði við endurtekna kosningu. Verði atkvæði þá jöfn skal veita embættið
öðrum hvorum þeirra,sem flest fengu atkvæðin, eða einum af þremur, ef þeir
fá allir jöfn atkvæði.
194