Són - 01.01.2003, Page 23
Kristján Árnason
Um braghrynjandi
að fornu og nýju
I Hrynjandi bragar
Reglur um hrynjandi bragarhátta eru tvenns konar. Annars vegar eru
almennar reglur um það í hverju hrynjandin er fólgin og á hvern hátt
má uppfylla kröfur bragarháttanna um ris og hnig, hins vegar eru
nákvæmari skilgreiningar á einstökum háttum, t.d. um það hversu
margir bragliðir eru í hverju vísuorði (braglínu) og hvers eðlis þeir
eru (rísandi eða hnígandi, þríliðir eða tvíliðir). Hin almenna regla í
yngri kveðskap íslenskum er auðvitað sú að risi í brag samsvarar
áhersluatkvæði í textanum en hnigi svarar áherslulítið atkvæði. Þótt
eldri kveðskapur, t.d. dróttkvæði og eddukvæði (sem ort eru fyrir þá
hljóðdvalarbreytingu sem átti sér stað um siðaskipti), lúti svipuðum
lögmálum er mikilvægur munur á þeim kveðskap sem fylgir eldri
hljóðdvalarlögmálum og þeim sem ekki gerir það. Að þessu verður
vikið í síðari hluta þessarar greinar en fyrst verður farið nokkrum
orðum um almennari atriði með dæmum úr yngri kveðskap.
II Form og formgerðir bragarhátta
Reglurnar sem skilgreina einstaka hætti fjalla eins og áður sagði um
það hvort hættirnir byggist t.d. á tvíliðum eða þríliðum eða hvort
hrynjandi sé rísandi eða hnígandi. Einnig eru þar reglur um fjölda
risa og línulengd og um línufjölda í vísu. Þessar skilgreiningar gefa
allfjölbreytilegt úrval bragarhátta sem hafa ólíkan stílblæ. Skilgrein-
ingarnar eru misjafnlega ýtarlegar. Þannig eru t.a.m. skilgreiningar
dróttkvæðs háttar á margan hátt nákvæmari en skilgreiningar forn-
yrðislags og rímur eru fastari í formi en þulurnar.
Ef s er látið standa fyrir ris og v fyrir hnig má t.a.m. skilgreina
ferskeyttan hátt eins og hér er gert, þ.e.a.s fjórar línur þar sem skipt-
ast á ris og hnig, fjögur ris í frumlínu og þrjú í síðlínu: