Són - 01.01.2003, Síða 51
ÁFANGAR 51
Þessi háttur er órímaður, hefur venjulega forlið og oftast þríliði og
þrír og tveir bragliðir skiptast reglulega á. Hann varð fádæma vinsæll
og telst fyrsta nýsmíði íslensks skálds um langan aldur. Ekki hafði
Bjarni fyrr birt ljóðið en Guðný frá Klömbrum tók hann upp í
þekktu ljóði, „Sit ég og syrgi“, en þar lýsir hún sárum harmi eftir
mann sinn við skilnað þeirra:27
Sit ég og syrgi mér horfinn
sárt þreyða vininn,
er lifir í laufgræna dalnum
þótt látin sé ástin.
Fjöll eru og firnindi vestra,
hann felst þeim að baki.
Gott er að sjá þig nú sælan,
þá sigrar mig dauðinn.
Hér er hátturinn að því leyti reglulegri en hjá Bjarna að Guðný víkur
ekki frá þríliðum. Hins vegar lætur hún skeika að sköpuðu hvort
braglínur hefjast á forlið. Í þessum tveimur ljóðum er tónninn sleginn
og eftir þetta er hátturinn að mestu tileinkaður erfiljóðum og öðrum
þeim sem fjalla um harmsefni af ýmsu tagi.
Þegar Jónas Hallgrímsson minnist Bjarna, höfundar háttarins, í
ljóðinu „Bjarni Thórarensen“ velur hann sér vitaskuld háttinn hans.
Hann heldur að mestu þríliðunum en er ósárt um að forliðir falli
niður. Jónas merkir sér þó háttinn með því að bæta talsverðu innrími
í hann. Það sést vel í síðasta erindinu:28
Kættir þú margan að mörgu,
svo minnst verður lengi,
þýðmennið, þrekmennið glaða
og þjóðskáldið góða!
Gleðji nú guð þig á hæðum
að góðfundum anda!
Friði þig frelsarinn lýða.
Far nú vel, Bjarni!
27 Guðný frá Klömbrum (1951:103).
28 Jónas Hallgrímsson (1980:99).