Són - 01.01.2003, Page 52
ÞÓRÐUR HELGASON52
Þessu fylgir Jónas eftir í þekktasta ljóðinu undir hættinum, „Ásta“
(„Ástkæra ylhýra málið [...]“), og líklegt er að það ljóð hafi gefið hætt-
inum byr undir báða vængi.
Þess má geta að Kristján Jónsson Fjallaskáld þýddi fyrstur skálda
ljóð undir hættinum. Það var „Ástargnoðin“ eftir Thomas More.29 Sá
sem orti flest ljóð undir Bjarnahætti var Jón Thoroddsen, alls sjö.
Athyglisvert er að Stephan G. Stephansson beitir hættinum ekki —
en mótar nýtt afbrigði hans, einmitt í erfiljóði, „ Jón Jónsson frá
Strönd“. Þannig er fyrsta erindið:30
Strandar-Jóns á steðja
storknar ryðið.
Smiðjuafl er orpinn
öskugjalli.
Lækka stroknir lokkar
lokarspóna.
Nú er greypt í grópum
gaflhlað efsta.
Stephan beitir hér eingöngu tvíliðum og forliðir eru horfnir. Auk þess
fegrar hann háttinn með innrími.
Í næsta kafla verður fjallað um það er fornyrðislag binst ljóðahætti
í einu og sama erindi. Þess eru einnig nokkur dæmi að fornyrðislagið
sé hluti erindis sem á rætur í nýrri kveðskap. Hér á eftir fer „Ragnar.
Lítill flokkur“ eftir Stephan G. Stephansson:31
Sat inn heimski
í hásæti,
Ella konungur,
kátur að veizlu.
Við borðið hann studdist, hann stóð upp og kallar:
„Inn stórláti Ragnar er hniginn til vallar!“
Þannig hefur fornyrðislagið gamla verið prófað með fjölda afbrigða í
tvær aldir og þeim tilraunum er áreiðanlega ekki lokið.
29 Kristján Jónsson Fjallaskáld (1986:313).
30 Stephan G. Stephansson (1954:100).
31 Stephan G. Stephansson (1958:181–182).