Són - 01.01.2003, Page 59
ÁFANGAR 59
Segja má sem svo að enginn bragarháttur Íslendinga, hvorki fyrr né
síðar, hafi í sér fólginn jafnmikinn hljóm. Þetta virðast skáldin hafa
fært sér í nyt og þótt hann tilvalinn til að túlka efni sem t.d. lýstu
ýmiss konar hamförum á himni og jörðu. Það er vart tilviljun að
Jónas Hallgrímsson velur sér þennan hátt í ljóðinu „Víti“. Lesendur
geta sjálfir farið með eftirfarandi erindi upphátt og fylgst með því
hvernig hljómurinn magnar efnið og andann:48
Ber mig að brenndum auri
breiðar um funa leiðir
blakkur að vítis bakka,
blæs þar og nösum hvæsir.
Hvar mun um heiminn fara
halur yfir fjöll og dali,
sá, er fram kominn sjái
sól að verra bóli?
Slíkt hið sama má segja um ljóð Jónasar „Fremri-Námar“.49 Sérlega er
þetta einkenni áberandi í „Sláttuvísu“ og er sem hljómur og hrynjandi
sameinist um að sýna verkið í reynd:50
Glymur ljárinn, gaman!
Grundin þýtur undir,
hreyfir sig í hófi
hrífan létt mér ettir,
heft er hönd á skafti,
höndin ljósrar drósar.
Eltu! áfram haltu!
Ekki nær mér, kæra!
Ljóst er að Sveinbjörn Egilsson hefur komið auga á þennan mögu-
leika háttarins, t.d. í veðurlýsingum, eins og lesa má úr ljóðinu „Veð-
urfar“ frá 1812:51
48 Jónas Hallgrímsson (1980:62).
49 Jónas Hallgrímsson (1980:63).
50 Jónas Hallgrímsson (1980:133).
51 Sveinbjörn Egilsson (1952:62).