Són - 01.01.2003, Page 82
RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON82
með fettum og brettum
og glennum og grettum.
Eg geri það tímunum saman.
Ef línurnar þrjár eru nú settar upp sem tvær verður útkoman líka hár-
rétt bragfræðilega:
með fettum og brettum og glennum og grettum.
Ég geri það tímunum saman.
Fimmta braglínan þarf ekki að tengjast þriðju og fjórðu línu með
höfuðstaf. Hún getur sem best verið sér um stuðla, eins og til dæmis
í „Riddarasögu“, íslenskri gerð Hrólfs Sveinssonar á limru sem til er
á ýmsum tungumálum, þ. á m. latínu:17
Hann Bárður í Svalvogum brosti,
á bjarndýri reið hann í frosti.
Þó endar sú saga
í mjög hlýjum maga,
og þá var það bangsi sem brosti.
Einnig má stuðla stuttu línurnar tvær eins og samstæðar braglínur í
fornyrðislagi en þar getur sú fyrri ýmist haft einn eða tvo stuðla.
Höfuðstafur verður svo í fyrsta risi þeirrar seinni. Dæmi um það er
eftir Vilfríði vestan og kallast „Æðruleysi“:18
Sr. Agli var ekki um að kvarta,
og þegar Ásgerður reif hann í parta
hann barasta byrjaði
bóksöng og kyrjaði:
Ó, dýrð sé þér, dagstjarnan bjarta.
Dæmi eru um að þriðja og fjórða braglína hafi sína tvo stuðlana
hvor. Þetta er rétt samkvæmt ströngustu reglum bragfræðinnar en ef
til vill verður kveðskapurinn helst til hlaðinn stuðlum þegar þannig
er ort. Aftur er það Vilfríður vestan og kallar nú kveðskapinn
„Verkvöndun“:19
17 Hrólfur Sveinsson (1993:15).
18 Gísli Jónsson (2001:54).
19 Gísli Jónsson (2001:67).