Són - 01.01.2003, Page 86
RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON86
hefð að hafa nánast allar hefðir að engu þegar því er að skipta. Sú til-
hneiging virðist vera mun sterkari þegar um er að ræða limrur en
aðrar vísur. Gott dæmi um það er eftirfarandi limra eftir Gísla Rúnar
Jónsson:24
Svo lést hann Leópold kjaftur
og lofaði að ganga ekki aftur
en svo gekk hann aftur
og aftur – og aftur
og aftur – og aftur – og aftur.
Í limrunni hans Gísla er vissulega farið fullkomlega út af sporinu
hvað bragreglur áhrærir en hún er jafngóð fyrir því – af því að þetta
er limra.
Þorsteinn Valdimarsson átti það líka til að búa til skemmtileg
afbrigði þegar limran var annars vegar. Þessi heitir „Leifur heppni“:25
Haldi’ hún í horfi slíku,
þá hygg ég það,
að fátt verði lagt að líku
við lán vort – að
týna Ameríku.
Þannig leika limruskáldin sér að því að ganga á snið við reglurnar og
brjóta þær jafnvel á stundum með góðum árangri. Hinu má þó ekki
gleyma að til þess að geta brotið reglurnar verða menn að þekkja þær
og vita hvað þeir eru að brjóta. Aðeins þannig er hægt að sætta sig við
að hagyrðingarnir fari út af sporinu.
Limran hefur unnið sér fastan sess í ríki íslenskra bragarhátta.
Þetta bragform, sem varla þekktist hér um miðja 20. öld, hefur á síð-
ustu áratugum náð miklum vinsældum. Undanfarin ár hefur orðið til
sægur af íslenskum limrum og stöðugt bætist við. Í lokin skal tekið
undir orð Gísla Jónssonar sem vitnað er til hér að framan: Það er afar
mikilvægt að huga að stuðlasetningu limrunnar. Þetta sérkenni kveð-
skaparins, sem nú er hvergi til í lifandi máli nema hér á Íslandi, ber
að varðveita. Hagyrðingarnir hafa lagað limruna að þeim reglum sem
fyrir voru í braghefðinni. Þó að þeir víki stundum frá þeim reglum og
24 Gísli Rúnar Jónsson (2001).
25 Þorsteinn Valdimarsson (1965:102).