Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 28
28
BjöRN ÆGiR NoRðfjöRð
Mulholland Dr. (2001), auk Inland Empire (2006; 26. sæti í FC), hefur þurft
að leita á náðir Frakka til að fjármagna myndir sínar. Þetta helsta vígi list-
rænu kvikmyndarinnar kemur ágætlega út úr könnuninni en önnur sögu-
leg stórveldi í vestur-evrópskri kvikmyndagerð eiga einfaldlega ekki full-
trúa á listanum — og Japan sem lengi var fulltrúi Asíu á þar aðeins eina
mynd. Greinilegt er að kort heimsbíósins fellur hvorki að atlas heimsbók-
menntanna eða heimspólitíkurinnar. Sterk staða Asíulandanna Kína,
Taívan, Hong Kong og Taílands er jafnframt athyglisverð en írönsk kvik-
myndagerð virðist að mestu horfin af kortinu eftir að hafa verið mjög í
brennidepli þess undir lok 20. aldarinnar. Afríka kemst aftur á móti hvergi
á blað og Argentína er eini fulltrúi Suður-Ameríku. Er það ágæt áminning
um að þótt kortið sé sannarlega orðið lýðræðislegra en það var framan af
öldinni ríkir nú ekki jafnræði á meðal landa þess. Loks vekur einnig athygli
uppgangur Evrópuríkja á borð við Rúmeníu og Portúgal sem lengstum
hafa verið á jaðri heimsbíósins.
Kort þetta dregur fram lykilstaði, leikstjóra og myndir heimsbíósins en
því fer fjarri að með því sé sagan öll. Um leið og við tökum að rýna í lönd
og myndir kortsins kalla þær fram með einum eða öðrum hætti lykilspurn-
ingar er snúa að hnattvæðingu, þverþjóðleika, hverslags sjálfsmyndum
(ekki síst þjóðarímyndum), stöðu kvikmyndarinnar sjálfrar í samtímanum,
auk sértækari spurninga allt eftir þeirri mynd sem um ræðir. Kvikmyndir
þessar eru ljóslega afurðir hnattvæðingarinnar, sem oft birtist í margvís-
legu samstarfi ólíkra þjóða, auk þess sem þær hafa ferðast vítt og breitt um
heiminn. En ólíkt hinum dæmigerðu afurðum hnattvæðingarinnar, frá
gos drykkjum til skýjakljúfa, eru þessar spurningar jafnframt viðfangsefni
heimskvikmyndanna. Eitt skýrasta dæmið er að finna í Asíulöndunum
Kína, Taívan og Hong Kong, sem koma einmitt svo vel út úr úttekt Film
Comment. Stjórnmálalegt samband þessara ríkja/umdæma er afar flókið og
söguleg tengsl þeirra margbrotin. Hong Kong er nú sérstakt sjálfstjórnar-
hérað í Alþýðulýðveldinu Kína eftir að hafa verið lengi undir yfirráðum
Breta, auk þess sem Alþýðulýðveldið gerir tilkall til Taívans sem undan-
farna áratugi hefur barist fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á sjálfstæði sínu.
Til að flækja málin enn frekar er Taívan fyrrverandi nýlenda Japana og eyj-
arnar enn tengdar með ýmsum hætti, t.a.m. í kvikmyndaframleiðslu líkt og
samstarfsverkefnin Yi Yi (2000, Edward Yang, Einn og tveir; 3. sæti í FC) og
Kôhî jikô (2003, Hou Hsiao-hsien, Kaffi Lumière; 37. sæti í FC) bera með
sér en í báðum myndum snúa efni og þema að eyjunum tveimur. Þriðja