Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 81
81
sýningardagur fyrir hrollvekjur vegna tengsla dagsetningarinnar (6.6.6.)
við kennimark kölska.38
Á kynningarspjaldinu er hinu dæmigerða bókstaflega snúið á haus svo
að væntanlegur áhorfandi veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga. Er dag-
setningunni ætlað að draga fram þá ógn sem býr í kvikmyndinni, eða er
hún fyrst og fremst vísbending um að myndin sé fyndin? Líklega á dag-
setningin að standa fyrir það sem Geoff King kallar blöndu tveggja frá-
sagnarhátta (e. mixing modalities), en frásagnarhættir koma á framfæri þeim
„tengslum sem skilaboð“ textans hafa „við yfirlýstan veruleika“. Sumir
textar standa nálægt „raunveruleikanum“ eins og hann er almennt skil-
greindur, t.d. „fréttir og fréttaskot (e. documentary footage)“,39 á meðan
aðrir textar standa honum fjær, eins og ævintýri um eldspúandi dreka.
Frásagnarháttur gamanleiksins gerir áhorfendum kleift að taka ekki alvar-
lega þau óhöpp sem persónur hans verða fyrir. Það vekur kátínu ef potað
er í augu þeirra, eða ef kviknar í buxnasetunni,40 því að áhorfandinn skilur
hvernig tengslum atburðanna við „veruleikann“ er háttað í gamanleik. Af
þessum sökum detta persónur á ólíkan hátt niður stiga í harmleik, meló-
drama, farsa eða hrollvekju, og það hefur ólíkar afleiðingar í för með sér.
Sjálft fallið og afleiðingar þess eru í samræmi við „veruleikakröfur“ grein-
anna. Áhorfendur vita hvers konar mynd fall niður stiga tekur á sig í ærsla-
leik. En þá vaknar sú spurning hvernig persónur falla niður stiga í ærsla-
slettu og hvaða áhrif fallið hefur á líf þeirra?
Til blöndu ólíkra frásagnarhátta má rekja þau óþægindi sem svo oft
vakna með áhorfendum hryllingsmynda þegar þeir ráða ekki við sig og
hlæja að „sundurtætandi sársauka persóna sem eru sannast sagna í fárán-
legum aðstæðum“ svo að vísað sé í orð Brendu Cromb.41 Senurnar verða
38 Endurgerðin á The Omen var frumsýnd á þessum degi. Kennimarkið kemur úr
opb. 13. 18.
39 Sjá Geoff King, „,Killingly funny‘: mixing modalities in New Hollywood’s comedy-
with-violence“, New Hollywood Violence, ritstj. Steven Jay Schneider, Manchester
og New York: Manchester University Press, 2004, bls. 126–143, hér bls. 129–30.
King vísar hér í umfjöllun Roberts Hodge og Davids Tripp í Children and Television:
A Semiotic Approach, Cambridge: Cambridge Polity Press, 1986, bls. 43. Ég fjalla
ítarlega um „raunveruleikatengsl“ ólíkra bókmennta- og kvikmyndagreina í
„Dauðinn á forsíðunni: DV og gotnesk heimssýn“, Skírnir 180, vor og haust 2006,
bls. 105–132 og 313–356, sjá hér sérstaklega bls. 116–118.
40 Geoff King, „Killingly funny“, bls. 130.
41 Sjá Brenda Cromb, „Gorno: Violence, Shock and Comedy“, bls. 23. Cromb er á
þeirri skoðun að húmor megi meira að segja finna í kvalaklámsmyndum. Þær megi
túlka sem andstyggilega brandara, en það sé einmitt kaldranalegur húmorinn og
UNDIR HNÍFNUM