Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 112
112
áhorfendum um allan heim.31 Viðtökurnar bera þess vott að súrrealískt
hispursleysið sé of særandi fyrir blygðunarkennd meginstraumsins og
ádeilan fari þar af leiðandi fyrir ofan garð og neðan. Því er þó ekki hægt að
neita að listileg formfágun einkennir alla þætti myndarinnar.
Þó að Almodóvar sé vissulega einstakur listamaður eiga taktar hans sér
fordæmi eins og hér hefur þegar komið fram. Bera má á borð vensl við
spænskt bókmenntaafbrigði sem kennt er við afbökun eða afmyndun (sp.
esperpento) sem vísar til hræðilegra, afskræmdra persóna eða hluta.32
Upphafsmaður þess var leikskáldið Ramón del Valle-Inclán (1866–1936)
en hann hafði róttæk áhrif á þróun leikhúslífs heimalandsins á fyrri hluta
tuttugustu aldar sem og á marga síðari tíma listamenn. Afbrigðið felur í sér
vissa afbökun á raunveruleikanum en Valle-Inclán var iðinn við að beina
spjótum sínum að hroka og yfirborðsmennsku viðurkenndra skálda og
skopstæla viðhorf ráðandi stétta. Karlmennska, kaþólska kirkjuveldið,
hernaðar- og þjóðernishyggja voru helsti skotspónn hans en leikritin
drógu enn fremur gjarnan upp niðrandi mynd af valdmönnum fyrri tíma
með óhefluðum, ruddalegum leik og klúru myndmáli í háðskri árás á
bragðdaufa meðalmennskuna.
Almodóvar á augljóslega margt sammerkt með Valle-Inclán en verk
hans voru bönnuð á tíma Franco. Þótt Almodóvar sé ekki jafn beinskeyttur
í pólitík sinni afbyggja þeir báðir og deila á misrétti spænsks samfélags
með því að gera út á kvíða, gremju, óöryggi og firringu mannlegrar til-
veru. Hugmyndin um tvískipt eðli mannsins einkennir verk beggja en
Valle-Inclán sá manninn fyrir sér sem strengjabrúðu samfélagsins með
bælda innri sjálfsmynd sem rímar ágætlega við áðurnefndar hugmyndir
Almodóvar. Framhliðin — skilyrta og útskipaða hlutverkið, dylur innra
eðlið og þrár, samfélagið er heltekið af því að stjórna ástríðum þegnanna
31 Paul Julian Smith telur Almodóvar hafa tapað áttum með gerð þessarar myndar.
Sjá „Future Chic,“ Sight and Sound júní 1994, bls. 10. [Hér tilvitnað eftir Gwynne
Edwards, Labyrinths of Passion, bls. 140.]
32 Í heimildum þýddum úr spænsku er minnst á þessa tengingu í framhjáhlaupi og
hún ekki rædd að öðru leyti en því að heitinu bregður fyrir. Sjá Pedro Almodóvar:
Interviews, bls. 17, 32 og 49. Nánast ómögulegt er að nálgast ritrýndar heimildir
um esperpento á öðrum málum en spænsku en hægt er að draga almennar ályktanir
af einföldum spænskum samantektum og alfræðiritum á netinu. (Höfundur verður
að viðurkenna takmörk sín. Þar sem hann kann lítið fyrir sér í spænsku eru þær
heimildir sem er stuðst við afar almennar samantektir af netmiðlum eins og
Wikipedia.org og Britannica.com. Því er settur fyrirvari um áreiðanleika eftirfarandi
málsgreina þó að heimildagildi þeirra sé óyggjandi.) Vert er að benda á þessa teng-
ingu því að hún á skilið nánari greiningu.
hjöRDís stEfáNsDóttiR