Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 63
63
HRoLLVEKJUR LIGGJA TIL ALLRA ÁTTA
þaðan af stút. Fleiri tilvísanir til þessarar klassísku og þekktustu sögu
vampýrunnar birtast í því þegar Eli klifrar upp húsveggi og flýgur um, þó
að ekki sé ljóst hvort hún breytist í leðurblöku. Allavega líkist hún dýri í
árásum sínum, þegar blóðþorstinn sækir á hana þá rymur í henni eins og
dýri og andardrátturinn verður hás, en hið dýrslega eðli vampýrunnar er
einmitt undirstrikað í Drakúla. Frásagnarframvindan er líka ákaflega
formúlukennd og fylgir hefðum vampýrusögunnar nokkuð nákvæmlega:
atburðarásin hefst á óþekktri ógn sem skyndilega gerir vart við sig í annars
friðsamlegu samfélagi og fer stigvaxandi. Samhliða ógnarfléttunni er lögð
áhersla á vináttutengsl vampýrunnar, sem berst við sitt innra eðli, og sak-
leysingja, sem smátt og smátt áttar sig á því hvað er á seyði.
Það er líka áhugavert að bera myndina saman við aðra kuldalega vam-
pýrumynd, 30 myrkir sólarhringar (2007, David Slade, 30 Days of Night),
sem er byggð á samnefndri myndasögu. Þar segir frá hópi vampýra sem
ákveður að taka yfir lítið þorp í Alaska, til að lifa þar í skjóli þess linnulausa
myrkurs sem ríkir á norðurhjaranum. Í Þeim rétta er hins vegar ekki verið
að flækja slíkum vangaveltum í söguna, heldur er norðrið, með sínum snjó,
kulda og hríðum, einfaldlega notað sem ferskur bakgrunnur og umgjörð
fyrir klassíska sögu og verður þannig enn áhrifameiri fyrir vikið. Hið hvíta
umhverfi gefur til kynna einskonar skírslu, hreinsun, sem er í takt við hið
nýja líf sem Eli finnur með Óskari — og Óskar með Eli — en er í algerri
andstæðu við hið frekar niðurdrepandi umhverfi myndarinnar að öðru
leyti, klunnalegar blokkir og sjúskað innbú. Mikilvægi hvíta litarins er enn
undirstrikað þegar Óskar situr eftir í kennslustofunni að skrá niður Mors-
kóðann til að geta haft samskipti við Eli gegnum vegginn sem aðskilur
íbúðir þeirra, en þar situr hann einn í krítarhvítri kennslustofu, eitt augna-
blik öruggur í eigin heimi, áður en hann þarf að fara út og mæta kvölurum
sínum.
Formúla og fagurfræði
Þessar tvær kuldalegu hryllingsmyndir eru gott dæmi um fjölbreytni innan
kvikmyndagreinarinnar og standa í raun hvor á sínum enda skalans.
Dauður snjór er dæmi um meðvitaða útgáfu af formúlunni og er jafnframt
mynd sem gerir út á „hávaðasaman“ hroll, með ýktri líkamlegri grótesku
og klassískum atriðum sem þjóna því hlutverki að bregða áhorfandanum.
Fáir myndu tengja myndina við listrænar kvikmyndir ef hún væri banda-
rísk framleiðsla, en vegna þess að hún er evrópsk og norsk þá reynir hún