Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 174
174
heimildamyndir. Slík aðgreining henti ekki sjálfsævisögunni, í hvaða formi
sem hún er.12
Sjálfsævisögulegir þættir í kvikmyndum hafa líka mótast af áherslum
frönsku nýbylgjunnar þar sem finna má aukna meðvitund um frásögn og
sjálfsmeðvitaðar vísanir. Þarna voru kvikmyndirnar að einhverju leyti
undir áhrifum frá nýsöguhöfundum, en þeir skrifuðu einnig kvikmynda-
handrit eins og Avrom Fleishman hefur bent á,13 auk þess sem í kvikmynd-
unum má sjá fleiri tilraunir með huglægt sjónarhorn og þátttöku kvik-
myndagerðarmannanna sjálfra í eigin myndum.
Gernalzick ræðir ekki sjálfsævisögulegar teiknimyndir í þessu sam-
hengi, sem hljóta þó að falla undir skilgreininguna sjálfsævisögulegar
kvikmyndir — þó virðist mér sem Persepolis standi nær sjálfsævisögunni en
sjálfsævisögulegu skáldsögunni, sem er líklega enn eitt dæmið um að skil-
greiningar og flokkanir eru ekki alltaf mjög upplýsandi þegar sjálfsævi-
söguleg verk eru annars vegar. Þáttur Satrapi í kvikmyndinni er hreinlega
of stór til að afgreiða á einfaldan máta. Þar má til dæmis nefna að hún lék
nærri því hverja senu fyrir teiknara og leikara til að þeir næðu betra sam-
bandi við efnið, eins og fram kemur í heimildamynd sem fylgir dvd-diskn-
um, en þar ræðir meðleikstjóri hennar einmitt þann vanda, sem allir voru
meðvitaðir um við gerð myndarinnar, að hér væri persónuleg reynsla eins
kvikmyndagerðarmannsins efniviðurinn og þar með væri sköpun hinna
listamannanna sem að verkinu komu bundin af henni.
Konur með blæjur og karlar með skegg
Sjálfsævisagan gekk í endurnýjun lífdaga og í gegnum mikið endurmót-
unarskeið þegar minnihlutahópar og konur tóku að nota formið til að láta
í sér heyra á sjöunda og áttunda áratugnum. Rocío G. Davis hefur bent á
að æviskrif einkennist sífellt meira af samræðu sem endurspeglar marg-
radda menningarlega stöðu og notfærir sér spennuna milli persónulegrar
og samfélagslegrar orðræðu í textum. Etnísk framsetning varð þar af leið-
andi miðlæg fyrir sjálfsævisögulegar aðferðir og þá vekur sérstaka athygli á
hvaða hátt slíkir textar sýna fram á einstaklingsbundna leið að sjálfs-
mynd.14
12 Sama rit, bls. 3.
13 Avrom Fleishman, Narrated Films: Storytelling Situations in Cinema History, Balti-
more: Johns Hopkins University Press, 1992, bls. 50.
14 Rocío G. Davis, „A Graphic Self: Comics as Autobiography in Marjane Satrapi’s
Persepolis“, Prose Studies 27:3, desember 2005, bls. 264–279, hér bls. 265.
GuNNþóRuNN GuðmuNDsDóttiR