Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 191
191
9/11: Time of Crisis (2003) sem skartar Timothy Bottoms í hlutverki
George W. Bush. Þar er viðbrögðum æðstu ráðamanna við hryðjuverka-
árásunum lýst og mikil áhersla er lögð á styrkleika og forystuhæfileika
sjálfs forsetans. Þessi samsláttur afþreyingar og stjórnmála, ímynda og
áróðurs, sem vísað er til sem „the military-industrial-media-entertainment
network“ eða MIME-NET, sýnir að mati höfundar hvernig barátta
hryðju verkastríðsins er háð á „hnattrænum vettvangi ólíkra upplýsinganeta
sem teygja sig inn í daglegt líf okkar á áður óþekktan hátt“.22
Greining Derians er athyglisverð en hann reyndist sannspár um sam-
slátt stjórnmála og ímyndamiðla í „hryðjuverkastríðinu“. Þá sýnir greining
hans hversu mikilvæg meginstraumskvikmyndin er í átakaferlinu kringum
atburðina ellefta september, en fram hjá henni er oft horft í umfjöllun um
áhrif fjölmiðlunar á hið „dramatíska leikverk“ árásanna sem Miller vísar
til. Tilraunir stjórnvalda til að beita kvikmyndum fyrir sig í beinum áróðri
eru ekki nýjar af nálinni en hér ber að hafa í huga hið breytta fjölmiðla-
landslag sem hugmyndafræðileg inngrip þurfa í auknum mæli að laga sig
að. Stórar myndveitur á borð við Hollywood hafa ekki sömu einokunar-
stöðu á ímyndamarkaðnum og áður, þar sem framleiðsla hefur færst í
hendur fleiri og smærri framleiðenda, og netið hefur umbylt dreifingar-
leiðum myndefnis.23 Þess vegna má segja að starfsemi á borð við þá sem
Derian kennir við „MIME-NET“ sé í raun ekki jafn einföld og hann gefur
til kynna. Hætt er við að sá beinskeytti áróður sem Derian vísar til eigi erf-
itt uppdráttar í flóknu umhverfi framleiðslu og áhorfs, og þeirra mótsagna-
kenndu en viðkvæmu orðræðna sem umlykja hryðjuverkaárásirnar.
Þegar litið er til kvikmyndanna World Trade Center og United 93, risa-
vaxinna framleiðsluverkefna sem ætluð voru til dreifingar í kvikmyndahús
á alþjóðavísu, má t.d. greina mun flóknari samræðu við átakaferlið í kring-
um hryðjuverkaárásirnar en þá sem Derian gerir að umfjöllunarefni. Hér
má jafnvel leiða að því líkum að kvikmyndirnar forðist markvisst að tengja
sig hugmyndafræðilegum áróðri, beinni þátttöku í pólitískri umræðu eða
framleiðslu að undirlagi pólitískt hlutdrægra afla. Í báðum tilfellum valdist
t.d. leikstjóri til verksins sem hafði áunnið sér virðingu innan Hollywood
fyrir listrænar áherslur. Báðir leikstjórarnir eru sömuleiðis þekktir fyrir að
takast á við sögulega hörmungarviðburði í leiknum kvikmyndum. Paul
Greengrass leikstýrði Bloody Sunday (2002) sem fjallar um það hvernig
22 Derian, „9/11: Before, After, and In Between“, bls. 331.
23 Þó er vert að hafa í huga að nokkrir „risar“ eru afar áberandi á fjölmiðla- og kvik-
myndamarkaði og samþjöppun er mikil á þessu sviði í Bandaríkjunum.
RÁNYRKJA ÍMYNDARINNAR