Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 204
204
BJöRN ÞÓR VILHJÁLMSSoN oG HEIðA JÓHANNSDÓTTIR
vinnu. Stór hluti björgunarliðsins á vettvangi, múgur manns, hefur safnast
saman og klapp, blístur, gleðihróp og hamingjuóskir kveða við þegar
björgunarmennirnir handlanga börurnar sem McLoughlin liggur í niður
af rústafjallinu. Þannig lýkur frásögn kvikmyndarinnar af árásardeginum
með hjartnæmri sigurstund og áminningu um þolgæði og bræðralag and-
spænis illvirkjum. Í lokaatriði myndarinnar er vikið að söguhetjum nokkrum
árum síðar er þær mæta til grillveislu sem haldin er til heiðurs þeim sem
stóðu að björguninni. Þar er hnykkt á þeim lærdómi sem draga má af sögu
þeirra McLoughlins og Jimeno í lokaorðunum sem leikarinn Nicolas Cage
fer með og hljóma yfir myndrásinni: „ellefti september sýndi okkur hvað
manneskjan er fær um. Illsku, jú vitanlega. En einnig kom fram góðmennska
sem við höfðum gleymt að við ættum til. Fólk sem hjálpaði hvert öðru af
þeirri einföldu ástæðu að það var rétt. Það er mikilvægt að við tölum um
þessa góðmennsku, og að við minnumst þessa dags.“
ofangreindar túlkunaráherslur birtast jafnframt skýrt í þeirri orðræðu
sem aðstandendur leitast við að skapa með viðtölum og kynningarefni.
Lýsandi fyrir orðræðumótunina í kringum myndina er t.d. kynningarmynd
um framleiðsluferli World Trade Center sem gerð var af Paramount Pic-
tures, framleiðanda myndarinnar, er nefnist einfaldlega „The Making of
World Trade Center.“38 Hún veitir innsýn í áherslur þeirra sem komu að
gerð myndrinnar og framlag hvers og eins er jafnframt tengt einhvers
konar heildartúlkun á myndinni. Þannig lýsir leikstjórinn oliver Stone
kvikmyndinni sem almennri hugleiðingu um þolgæði og bjargræði sem
rúmist ekki innan staðlaðra kvikmyndagreina, og fjarlægir Stone sig þannig
markvisst hamfaramyndaforminu. Seamus McGarvey, kvikmyndatökustjóri
myndarinnar, bætir því jafnframt við að þegar öllu sé á botninn hvolft sé
World Trade Center „ótrúlega uppörvandi kvikmynd“ sem spretti úr miðju
„einna mestu hörmunga tuttugustu aldarinnar [sic]“. Nicolas Cage, sem fer
með hlutverk Johns McLoughlin, beinir sjónum að mikilvægi sambands
söguhetjanna sem beri vitni um „sigur viljans og mannsandans“.
Þá eru einnig kallaðir til þeir einstaklingar sem kvikmyndin fjallar um
og bent á aðkomu þeirra að framleiðsluferlinu. Þar er markvisst leitast við
að sýna fram á að aðstandendur World Trade Center hafi lagt sig fram um að
38 Kynningarmyndir á borð við þessa eru jafnan unnar í tengslum við markaðssetn-
ingu stórmynda og er markmið þeirra fyrst og fremst að mæra verkið sem um
ræðir, og er sú umræða framsett með viðtölum við leikara og helstu aðstandendur
myndarinnar um reynslu þeirra af gerð hennar. „The Making of World Trade
Center“ fylgir með í mynddisksútgáfu World Trade Center.