Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 141
141
kenningum Ibáñez festir maðurinn félagslegar rætur þegar hann tilheyrir
hópi eða samfélagi sem hann er í nánum tengslum við um leið og hann
festir menningarlegar rætur þegar hann samsamar sig ríkjandi gildismati.
Forráðamenn Renötu og Ulises efast um að svo geti orðið í kynþátta- og
stéttskiptu samfélagi Mexíkóborgar. Hamingja þeirra er háð því að þeim
takist að samsama sig samfélagi sem mótar þau og þau taka þátt í að móta.
Ef ekki bíður þeirra rótleysi og samkvæmt kenningum Ibáñez viðvarandi
óhamingja því að „vansæll maður er rótlaus maður.“51
Að reyna nýjar leiðir: „Þorirðu ekki að fljúga?“52
Rétt eins og í Og mamma þín líka glíma unglingarnir í Sársauka ástarinnar
við rótleysi sem tengist aldri þeirra, fjölskylduaðstæðum og samfélagshátt-
um. Þeir samsama sig hvorki með ráðandi gildum né viðhorfum, né heldur
þeim framtíðarhlutverkum sem bíða þeirra. Sögupersónurnar, aðallega
ungu karlmennirnir, eru einangraðir, afskiptir og ekki hvað síst duglausir.
Dregin er upp sú mynd að í hefðbundinni samfélagsgerð sé það í þeirra
verkahring að spyrna við fæti og leita nýrra leiða. En í mexíkósku kvik-
myndunum sem hér hefur verið fjallað um eru aðalpersónurnar ekki færar
um slíkt. Sjóndeildarhringur þeirra er takmarkaður og tilgangsleysið nær
tökum á þeim. Þeir láta beygja sig til félagslegrar hlýðni þrátt fyrir ígrund-
aðar efasemdir. Um leið og þeir snúa baki við eigin löngunum skynjar
áhorfandinn uppgjöfina. öfgakennd einstaklingshyggja virðist ráða lögum
og lofum því að einstaklingurinn hefur tapað mikilvægi sínu í samfélags-
legu tilliti. Hann einangrar sig frá félagslegum þörfum sínum og vellíðanin
sem samsömunin tryggði honum víkur fyrir vaxandi vanlíðan. Viðmið og
gildi eru fljótandi og undir stöðugum árásum „flókinna utanaðkomandi
afla“.53 Óöryggið verður viðvarandi, sjálfmyndirnar óstöðugar og afleið-
51 Enrique del Acebo Ibáñez, Félagsfræði rótfestunnar, bls. 38.
52 Charly García, Demoliendo Hoteles: Las mejores canciones de Charly García, Buenos
Aires: Ediciones Florentinas, 1997, bls. 93. Um þýðingu á titli lagsins „No te ani-
mas a despegar?“ er að ræða. Þar ákallar ljóðskáldið viðmælanda sinn og ásakar um
hug- og dáðleysi.
53 Geoffrey Kantaris, „Cinema and Urbanías: Translocal Identies in Contemporary
Mexican Film“, Bulletin of Latin American Research 25, hefti 4, 2006, bls. 517–527.
Hann bendir enn fremur á að „mexíkósk kvikmyndagerð [...] hefur einmitt snúist
um að framleiða ímyndir sem tengja staði og tilveru, sem aftengja hið staðbundna
og endurtengja hið fjarlæga með því að miðla stórborgartilverunni þar sem óstað-
bundnar sjálfsmyndir eru byggðar og afbyggðar í sífellu“, bls. 526.
RÍKJANDI RÓTLEYSI