Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 53
53
HRoLLVEKJUR LIGGJA TIL ALLRA ÁTTA
önnur mynd sem hafði reiðan kvendraug sem miðpunkt ógnarinnar er
Bölvunin, en framhaldsmynd, Bölvunin 2, var frumsýnd árið 2006. Sú mynd
fjallar um upptöku á raunveruleikaþætti í húsinu sem var miðpunktur
bölvunarinnar í fyrstu myndinni. Aðalleikkona þáttarins er barnshafandi
en eftir að búið er að taka upp þáttinn lendir hún í árekstri. Annar draug-
urinn úr húsinu (en í fyrri myndinni voru bæði kvendraugur og barns-
draugur, sonur kvendraugsins) hefur fylgt henni eftir og verður valdur að
slysinu. Allt lítur út fyrir að leikkonan hafi misst fóstrið, en í ljós kemur að
eitthvað ókennilegt heldur áfram að vaxa innan í henni og í lok myndar-
innar sjáum við hana á gangi með dóttur sína, sem skyndilega tekur sig til
og hrindir móður sinni niður háar tröppur og gengur í burt. Reiði kven-
draugurinn gengur því bókstaflega aftur í barninu og allt gefur til kynna
frekara framhald.
Utan þessa aðalþráðar blandast ýmsar aðrar persónur inn í draugagang-
inn, og þá fyrst og fremst þeir sem komu að gerð þáttarins og voru í hús-
inu.
Í upphafssenu myndarinnar er plottið útskýrt stuttlega: í útvarpstæki
bílsins er þáttur sem útskýrir bölvun, en hún er bráðsmitandi (eins og
zombismi), á sér upphaf á tilteknum stað en smitast á þá sem þangað koma.
og það er einmitt það sem gerist í Bölvuninni; kynnir þáttarins kemur
heim um kvöldið og finnur kærastann sinn hengdan í hári draugsins, sem
kæfir einnig stúlkuna. Hár japönsku kvendrauganna er mjög mikilvægt, en
það býr yfir sjálfstæðu lífi og vex ógurlega, auk þess að þjóna því hlutverki
að hylja andlit drauganna. Aðrir sem starfa við myndina hverfa einn af
öðrum. Auk þess kemur við sögu ung aukaleikkona sem sér annan draug-
inn styðja hendi á kvið aðalleikkonunnar ófrísku, hún deyr einnig voveif-
lega. Hana dreymir stöðugt eitthvað óhugnanlegt og myndatakan er þess
eðlis að það er næsta ómögulegt að gera greinarmun á veruleika og draumi;
samhliða þessu er leikið með tíma, en frásögnin byggist upp á miklu flakki
í tíma. öll myndataka er fremur hæg og litir daufir sem ítrekar enn frekar
draumkennda stemningu og máir út mörkin milli veruleika og annarlegs
sviðs. Sömuleiðis einkennist myndin, eins og aðrar japanskar draugamynd-
ir, af hægum tökum, stungnum hröðuðum og óvæntum skotum þegar
draugarnir birtast. Með þessu móti tekst að skapa sérlega sannfærandi
andrúmsloft þar sem bölvunin virðist hvarvetna og hinar hversdagslegustu
athafnir eru þrungnar ógn. Það er kannski í þessu sem japönsku myndirnar
eru hvað áhrifaríkastar og óvenjulegastar, sögusviðið er gert eins hvers-