Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 48
48
lykil atriði í því að fanga tilætluð áhrif. Sconce leggur reyndar sérstaka
áherslu á að skoða hvernig hrollvekjan er grundvöllur til að kanna nýjar
hugmyndir um fagurfræði og endurmeta gildismat og forsendur þess. 29
Þessi tenging hrollvekjunnar við hið listræna varpar áhugaverðu ljósi á
stöðu heimshrollvekjunnar innan flókins kerfis kvikmyndagreina. Þetta er
sérstaklega áhugavert með tilliti til þeirra nýlegu mynda sem hér eru til
umræðu, en flestar þeirra hafa náð nokkrum vinsældum og eru því tæplega
úti á ystu mörkum jaðarsins, án þess þó að geta talist til meginstraums-
mynda. Hugmyndir Sconce um nýja fagurfræði og nýtt gildismat segja sitt
um þær móttökur sem þessar myndir hafa fengið innan hinnar „upphöfnu“
kvikmyndamenningar, en almennt hafa þessar kvikmyndir hlotið jákvæðari
viðtökur kvikmyndagagnrýnenda en nýlegar bandarískar hrollvekjur, sem
eru iðulega fordæmdar heildrænt séð sem flöt formúluframleiðsla.30
Allt sem þú getur, get ég gert betur
Sem dæmi um óamerískan hrylling sem vakti athygli og eftirvæntingu
meðal breiðari hóps en hrollvekjunörda er rússneska myndin Næturvakt.31
Hennar var beðið með þó nokkurri eftirvæntingu en vel heppnuð mark-
aðssetning fór snemma af stað: Rússarnir væru sko á leiðinni með verulega
heitt stöff. Myndin vakti nokkra athygli þegar hún var frumsýnd en sló
kannski ekki jafn mikið í gegn og vonir stóðu til. Þrátt fyrir að vera bæði
fersk og kraftmikil og sérlega sláandi smart sjónrænt séð þá var söguþráð-
urinn einum of óskiljanlegur, meira að segja fyrir þá sem lesið hafa bæk-
29 Þessi umræða um listrænan hrylling tengist augljóslega hugmyndum um „kúlt“
sem hefur löngum verið mikilvægur hluti allrar hrollvekjugreiningar. Bók þeirra J.
Hobermans og Jonathans Rosenbaums, Midnight Movies, New York: Da Capo,
1991 [1983], var ákveðið brautryðjendaverk á þessu sviði, en önnur klassísk „kúlt“
bók er The Deep Red Horror Handbook, ritstj. Chas. Balun, New York: Fantaco
Enterprises, 1989.
30 Sérstaklega hefur sú bylgja endurgerða „klassískra“ hrollvekja frá áttunda og
níunda og jafnvel tíunda áratugnum hlotið dræmar viðtökur, en þrátt fyrir að þar
sé vissulega víða pottur brotinn eru líka fínar myndir inni á milli, eins og Ég sé í
gegnum fjöll og hæðir (upph. 1977, Wes Craven, endurg. 2006, Alexandre Aja, The
Hills Have Eyes) og Föstudagurinn þrettándi (upph. 1982, Sean Cunningham,
endurg. 2009, Marcus Nispel, Friday the 13th).
31 Þessar myndir eru byggðar á skáldsögum Sergei Luyanenko, en þær hafa notið
mikilla vinsælda í heimalandinu og eru nú allar komnar út á ensku. Það er reyndar
eftirtektarvert hversu margar af þeim heimshrollvekjum sem vakið hafa athygli á
Vesturlöndum eru byggðar á skáldverkum.
ÚlfhilDuR DaGsDóttiR