Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 187
187
Skýrasta dæmið um hryðjuverk sem krefjast hnattrænnar miðlunar — og
komast þannig fram hjá mögulegum ritskoðunarþröskuldi — er árásin á
Bandaríkin ellefta september 2001.12 Hið óhugnanlega sjónarspil sem þar
var „sviðsett“ hélt fjölmiðlum heimsins í „gíslingu“ og þar með ímyndun-
arafli heimsbyggðarinnar. Þá fól valið á skotmörkum í sér „innrás“ á svið
hins fagurfræðilega í formi notkunar á táknmáli og merkingarfræðilegum
skírskotunum þar sem Tvíburaturnarnir eru m.a. táknrænir fyrir banda-
ríska heimsveldið og hið vestræna fjármálakerfi.13
Fjölmiðlar nútímans eru að mörgu leyti í erfiðri stöðu þegar að umfjöll-
un um hryðjuverk kemur. Í The Terrorism Spectacle bendir Steven Living-
ston t.d. á að þótt fjölmiðlar séu í vissum skilningi fyrst og fremst að sinna
skyldu sinni þegar greint er frá hryðjuverkaárásum, þá sé eðlismunur á
hefðbundinni fréttamiðlun og þeirri endurtekningarsömu dramatík sem
einkennir gjarnan umfjöllun um hryðjuverk. Livingston heldur því fram
að misræmið á milli fréttaflutnings af hryðjuverkum og öðrum knýjandi
málefnum megi skýra með tilvísun til þess að fjölmiðlar, einkum sjón-
varpsmiðlar, séu ginkeyptir fyrir ýmsum eigindum sjónarspilsins, s.s. slá-
andi ímyndum þess og innbyggðri frásagnarlegri vídd, á tímum samkeppni,
vinsældakapphlaups og áherslu á æsilegar fréttir.14
Lengra mætti halda í þessa átt og spyrja hvort fjölmiðlar láti tælast af
hryðjuverkamanninum og fullkomni þannig hryðjuverkið, virkni þess og
tilgang. Dreifing um öldur ljósvakans er markmið hryðjuverkaárásarinnar
og fjölmiðlar reynast í þessu sambandi „óviljandi“ vitorðsmenn. Markviss
12 Talið er að um tveir milljarðar manna hafi séð myndefni af hryðjuverkaárásunum
daginn sem þær áttu sér stað. Samkvæmt því er um að ræða fjölmiðlaðasta frétta-
viðburð sögunnar. Sjá David Friend, „The Man in the Window“, Vanity Fair
september 2006. Um umfang fjölmiðlunar ellefta september og sérstöðu hryðju-
verkaárásanna sem fjölmiðlaviðburðar má lesa í greininni „Diffusion, Media Use
and Interpersonal Communication Behaviors“ eftir B. Greenberg, L. Hofschire
og K. Lachlan, Communication and Terrorism: Public and Media Responses to 9/11,
ritstj. Bradley S. Greenberg, New Jersey: Hampton Press, 2002, bls. 3–26. Einnig
má í þessu sambandi nefna Crisis Communication: Lessons from September 11, ritstj.
A. Michael Noll, Lanham: Rowman og Littlefield, 2003, og Media in a Terrorized
World: Reflections in the Wake of 9/11, ritstj. S. Venkatraman, Singapore: Eastern
Universities Press, 2004.
13 Nákvæma greiningu á táknrænum skírskotunum hryðjuverkaárásanna ellefta sept-
ember er að finna í Joseph S. Tuman, Communicating Terror: The Rhetorical
Di mens ions of Terrorism, London og New Delhi: Sage Publications, 2003, bls.
60–66.
14 Steven Livingston, The Terrorism Spectacle, San Francisco og oxford: Westview
Press, 1994, bls. 1–21.
RÁNYRKJA ÍMYNDARINNAR