Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 171
171
SJÁLFSMYND Í KVIKMYND
endurminningar íranskra kvenna hafa verið nokkuð vinsælar síðustu ár og
selst vel um hinn vestræna heim. Má þar til dæmis nefna bók sem kom út á
íslensku nýverið, Ég er Nojoud – 10 ára, fráskilin eftir Nojoud Ali, sem eins
og fleiri bækur af þessu tagi er skrifuð í „samvinnu“ við aðra, í þessu tilviki
Delphine Minoui. Amy Malek bendir á að stundum sé eins og þetta sé eini
tjáningarmátinn sem hinn vestræni heimur samþykki fyrir íranskar konur.
Hún tekur sem dæmi að Amazehd Moaveni höfundur bókarinnar Lipstick
Jihad (2005) hafi ætlað að skrifa úttekt á Íran nútímans, en úr varð enn ein
íranska minningabókin með mynd af konu með blæju á kápunni.4 Persepolis
hefur ekki verið þýdd á persnesku en Malek bendir á að vegna öflugs
svartamarkaðar og tengsla Írans við umheiminn þá eigi bókin sína lesend-
ur þar ef marka má færslur á írönsku bloggi.5
Árið 2007 var gerð kvikmynd eftir Persepolis í leikstjórn Satrapi og
Vincent Paronnaud. Myndin er nokkuð óvenjuleg miðað við margar
myndir af þessu tagi meðal annars að því leyti að hún er teiknuð en ekki
leikin, eins og til dæmis American Splendor (2003, Shari Springer Berman
og Robert Pulcini) og fjölmargar nýlegar bandarískar stórmyndir sem
gerðar eru eftir þekktum myndasögum, og einnig það að Satrapi er annar
leikstjóranna. Mjög vel hefur tekist til við að flytja stíl hennar úr mynda-
sögu yfir í kvikmynd, svarthvítu línunum er haldið, þær eru þó skýrari og
áferðarfallegri (gróf og rissuð strikin horfin í kvikmyndinni), en grunnlín-
an er sú sama. Stíllinn er þó kannski örlítið ýktari og stíliseraðri í kvik-
myndinni og hreyfingin bætir að sjálfsögðu nýrri vídd við — frásögnin er
ekki lengur innrömmuð í skýrt aðgreinda ramma — heldur orðin að einni
fljótandi hreyfingu. Myndin sker sig einnig úr að því leyti að í henni er
ekki notuð stafræn tækni, heldur er allt gert upp á gamla mátann; hver ein-
asti rammi er settur upp, teiknaður og litaður í höndunum.
Eins og áður segir hlaut bókin ákaflega góðar viðtökur, og kvikmyndin
fékk víðast gríðarlega góða dóma. Það eru þó alltaf undantekningar á slíku
og Rahul Hamid, gagnrýnandi tímaritsins Cineaste, sem er tímarit sem
leggur áherslu á pólitíska kvikmyndarýni, segir til dæmis að kvikmyndin
4 Amy Malek, „Memoir as an Iranian Exile Cultural Production: A Case Study of
Marjane Satrapi‘s Persepolis series“, Iranian Studies 39:3, september 2006, bls. 353–
380, hér bls. 364. Mörg dæmi um slíkar bækur má finna í bókaverslunum, má þar
nefna Journey from the Land of No: A Girlhood Caught in Revolutionary Iran eftir
Roya Hakakian (2005) og Persian Girls: A Memoir eftir Nahid Rachlin (2006) auk
fjölmargra annarra. Þess má þó geta að á kápu Lipstick Jihad ber konan farsíma upp
að blæjunni.
5 Amy Malek, bls. 377.