Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 62
62
ÚlfhilDuR DaGsDóttiR
þroskans.49 Þetta kemur hvað best fram í lokasenunni þegar Eli bjargar
Óskari frá ofsækjendum sínum með því að slátra þeim á gróteskan hátt,
meðal annars rífur hún höfuðið af einum. Með tilliti til þeirrar samfellu
sem hrollvekjan setur stöðugt milli kynlífs og ofbeldis er sú sena sérlega
áhugaverð í samhengi þessa kynþroskastefs, ekki síst ef kenning James B.
Twitchell um hrollvekjuna sem einskonar táknmynd kynþroskans yfirleitt,
og jafnframt kynþroskavígslu, er höfð í huga.50 Enda veldur hún straum-
hvörfum fyrir samband þeirra, því eftir þetta ákveður Óskar að fara burt
með Eli og gerast fylginautur hennar og verndari — og væntanlega veiði-
maður líka, alveg eins og barnaperrinn hafði áður verið. Óskar hefur sýnt
að hann er fullfær um ofbeldi þegar Eli hvetur hann til að ráðast gegn
einum kvalara sínum. Þetta er enn frekar undirstrikað í samtali þeirra um
hvort Eli sé vampýra, en Óskar ásakar hana um að drepa fólk. En þú
myndir drepa líka segir hún, til að hefna, ef þú gætir. Óskar getur ekki
andmælt þessu, enda rifjar hún upp þegar hún hitti hann fyrst en þá stóð
hann með hníf í höndunum og ímyndaði sér að hann væri að ná fram
hefndum á kvölurum sínum. Ég drep þó til að lifa, bendir Eli réttilega á.
Líkt og norska myndin um dauða snjóinn, eða dauðann í snjónum,
leikur sú sænska á sérlega áhugaverðan hátt með viðtekin vampýruþemu
og formúlur. Hér birtist okkur ástarsagan sem iðulega tengist vampýrunni
í alveg nýju formi, milli barna á barmi kynþroska. Aðstoðarmaðurinn er
afbrigðilegur alveg eins og Renfield í skáldsögu Bram Stokers, Drakúla
(1897), er geðsjúkur og borðar flugur, kóngulær og fugla, til að herma eftir
meistara sínum. En aðstoðarmaður Eli minnir reyndar líka á skemmtilega
öfugsnúinn hátt á aðra persónu skáldsögunnar, hinn fræga vampýrubana
Van Helsing, í senum sem sýna níðinginn pakka blóðaftöppunargræjum
ofan í einskonar læknatösku. Í skáldsögunni er Van Helsing einmitt læknir
og stendur fyrir heilmikilli aftöppun blóðs hjá aðalkarlhetjum sögunnar,
sem hann dælir í kvenhetjuna — bara til að Drakúla geti drukkið það
49 Þetta þema vampýru á barmi kynþroska er einnig til umfjöllunar í vampýruskáld-
sögum S. P. Somtovs, Vampire Junction (1984), Valentine (1992) og Vanitas (1995).
Anne Rice er líka með vampýrískt barn í sínum sögum, Interview with the Vampire
(1976) og The Vampire Lestat (1985), stúlku, sem er snöggtum yngri en söguhetjur
Lindquists og Somtows.
50 James B. Twitchell, Dreadful Pleasures: An Anatomy of Modern Horror, oxford:
oxford University Press, 1988. Þess má einnig geta hér að undarleg erótík eða
bara aukin áhersla á erótík og erótíseringar yfirleitt er eitt af því sem tengir saman
hrollvekjur og listrænar myndir. Sjá Stephen Crofts, bls. 39, David Bordwell, bls.
50 og Joan Hawkins, bls. 4–6.