Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 54
54
ÚlfhilDuR DaGsDóttiR
dagslegt — og almennt — og hægt er í stað þess að búa til afmarkað svið
ógnar, eins og algengara er í bandarískum drauga(húsa)myndum.
Þrátt fyrir þetta eiga japönsku draugamyndirnar ýmislegt skylt með
þeim bandarísku, en hvað varðar takt og myndatöku minnir Bölvunin 2
kannski hvað mest á eldri draugahúsamyndir eins og Reimleika (1963,
Robert Wise, The Haunting), sem einmitt fjallar um tilraun til að skrásetja
draugagang í húsi sem er frægt fyrir reimleika.36 Sú mynd byggir þó á ein-
angrun hússins og því að það er frá upphafi byggt á sérstakan hátt á meðan
megináhrif Bölvunarinnar byggja á því að húsið er ofurvenjulegt, staðsett í
miðju ofurvenjulegu úthverfi og sker sig ekki á nokkurn hátt frá öðrum
húsum í borginni. Annað sem er óvenjulegt er að draugagangi og skyggni-
gáfu er tekið sem fremur sjálfsögðum hlut og eru tengd trúarbrögðum og
hefðum Japana. Á sama hátt er búin til tilfinning fyrir þjóðareinkenni, ein-
hverju sér „japönsku“, með hinu rólega, næstum draumkennda andrúms-
lofti, sem Vesturlandabúar geta auðveldlega tengt við zeníska ímynd
Austurlanda fjær. Inn í yfirvegað búddískt yfirbragðið ræðst draugurinn
sem er sérlega óhugnanlegur á gróteskan líkamlegan hátt. Fyrir utan hið
bláhvíta yfirbragð og óvenjustór ranghvelfd augu, er hárið lykill að líkam-
legum óhugnaði eins og áður er sagt. Í ofanálag er mikið gert úr því að
afbaka og ýkja hreyfingar líkamans, til dæmis með skrykkjóttri myndatöku
og klassískt bragð með hönd sem teygir sig fram er ítrekað notað, en hún
virðist geta teygt sig óvenjulangt. Líkaminn er allur öfugsnúinn, höfuðið
snýr stundum aftur og limirnir undarlega krepptir. Allt undirstrikar þetta
að draugurinn er langt utan hins venjulega. Þessi atriði eru undirstrikuð í
fæðingarsenunni, en þar skríður fullvaxinn kvendraugurinn út úr konunni
með slímugt hár og bláhvítt og blóðugt andlit, handleggurinn teygist fram
og allar hreyfingar eru skekktar, of hraðar og krepptar — enda líður
læknaliðið út af eins og það leggur sig. Þessi blanda af sálfræðilegum,
hægum hryllingi og líkamlegri grótesku — sem er dyggilega studd af sér-
lega óhugnanlegum rophljóðum sem draugurinn gefur frá sér — er
umkringd japönskum kurteisisiðum sem skapa hryllingnum einkennilega
hógværa umgjörð og auka enn á áhrifin. Hér er greinilegt að þjóðarein-
kennin eru nýtt til hins ýtrasta, þrátt fyrir að í myndinni séu líka greini-
36 Af öðrum frægum draugahúsamyndum má nefna Húsið á reimleikahæð (1959,
William Castle, House on Haunted Hill, endurgerð 1999 af William Malone),
nokkrar myndir um Hryllinginn í Amityville (sú fyrsta 1979, Stuart Rosenberg;
endurgerð 2005, Andrew Douglas, The Amityville Horror), Duld (1980, Stanley
Kubrick, The Shining) og Hús-myndirnar (sú fyrsta frá 1986, Steve Miner, House).