Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 190
190
getur leitt til skilnings eða niðurrifs, aðlögunar eða aðskiln-
aðar, málamiðlunar eða útþurrkunar. Það skapar áþreifanleg
landamæri milli þjóða og það skilgreinir hin frumspekilegu
mörk milli lífs og dauða […] og það getur réttlætt hvaða beit-
ingu á ofbeldi sem er, eða því sem næst. Hagsmunir stuðla ekki
aðeins að stríðsátökum. Fólk fer í stríð vegna þess hvernig það
sér, skynjar, ímyndar sér og talar um aðra, hvernig það sem sam-
einar fólk og skilur það að hlýtur merkingu í gegnum ímyndir
og framsetningu.19
Hið mímetíska ímyndastríð felur í sér tilraun til að beita eigindum hins
nútímalega ímyndasamfélags í þágu ákveðins málstaðar. Það er í þessu
samhengi sem Derian greinir aukna áherslu bandarískra stjórnvalda á hið
rafræna, hið stafræna og ímyndir sem birtist meðal annars í stórtækri
njósnastarfsemi ríkisins gagnvart eigin þegnum. Í kjölfarið bendir hann á
að Hollywood sé mikilvægur vettvangur fyrir ímyndastríðið og að banda-
ríska ríkisstjórnin hafi lagt sig fram um að fá kvikmyndaiðnaðinn til liðs
við sig. Valdamiklir menn í Hollywood voru kvaddir á fundi í Hvíta húsinu
nokkrum vikum eftir hryðjuverkin 2001 og nokkru síðar efndi Karl Rove,
einn helsti ráðgjafi George W. Bush, til málstofu þar sem á fjórða tug
málsmetandi manna úr kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum var boðið að
hlýða á fyrirlestra um þau miklu átök sem í vændum voru. Markmiðið var
að „styrkja ímynd Bandaríkjanna“ á alþjóðavísu en samhliða því þótti
gagnlegt að virkja reynda menn úr hasarmyndagerð til að hugleiða mögu-
leg viðbrögð við hryðjuverkaógninni.20 Dæmi um afrakstur samvinnu af
þessum toga er stuttmyndin The Spirit of America, sem kom út í desember
2001, eftir Óskarsverðlaunahafann Chuck Workman en í myndinni eru
úrklippur úr þekktum kvikmyndum notaðar til að tjá þolgæði og baráttu-
anda Bandaríkjamanna.21 Hér má einnig nefna sjónvarpsmyndina DC
19 James Der Derian, „9/11: Before, After, and In Between“, Terrorism, Media,
Libera tion, ritstj. J. David Slocum, New Brunswick og London: Rutgers University
Press, 2005, bls. 328. Greinin kom upphaflega út í ritinu Understanding September
11, ritstj. C. Calhoun, P. Price og A. Timmer, London og New York: The New
Press, 2002.
20 Sama rit, bls. 330.
21 Myndin hlaut gríðarlega víðtæka dreifingu og var sýnd í ríflega 10.000 kvikmynda-
húsum, fjórðungi allra bíóa í Bandaríkjunum. Sjá Susan Faludi, The Terror Dream:
Fear and Fantasy in Post-9/11 America, New York: Metropolitan Books, 2007,
bls. 7.
BJöRN ÞÓR VILHJÁLMSSoN oG HEIðA JÓHANNSDÓTTIR