Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 175
175
Umræðan um hið margræða og margbrotna sjálf kemur því úr ýmsum
áttum. Við höfum því leitt að því líkum að kvikmyndin hljóti að tjá marg-
brotið sjálf, en það er ekki einungis vegna lögmála myndasögunnar og
kvikmyndarinnar heldur er í Persepolis margrætt sjálf til umræðu vegna
söguefnisins; það er að segja menningarlega margþætt sjálf.
Myndin segir frá ferð Marjane, eða Marji eins og hún er kölluð í bók og
mynd og mun ég halda mig við það nafn þegar ég ræði persónuna, í gegn-
um mismunandi menningarheima. Hún er alin upp í Teheran í frjálslyndri
fjölskyldu sem skyndilega þarf að takast á við kúgun bókstafstrúarmanna
eftir byltingu. Þegar hún er lítil stúlka er ekkert sjálfsagðara en að horfa á
vestrænar kvikmyndir, hlusta á vestræna tónlist og klæðast vestrænum
vörumerkjum. Allt þetta er forboðið í kjölfar byltingarinnar og mótmæli
hennar gegn ástandinu og erfiðleikar við að ráða við það gera það að verk-
um að foreldrar hennar senda hana til Vínarborgar. Þar býr hún um tíma
hjá nunnum og hér er það einmitt hið myndræna sem segir okkur allt í
einu eitthvað um vestrænan og austrænan kúltúr betur en orð hefðu gert
með góðu móti, því nunnukuflarnir og blæjurnar kallast á.
Stúlkan er sem sagt einhvers staðar týnd á milli menningarheima, hún
gengur í franska skóla í Teheran og Vín, talar ekki þýsku þegar hún kemur
til Austurríkis og frönsku með svo miklum hreim að enginn skilur hana.
Þessi barátta við tungumálið týnist hins vegar nokkuð í kvikmyndinni og
það vekur upp ýmsar spurningar. Það er nefnilega þannig að helstu pers-
ónur kvikmyndarinnar fá rödd sína frá stórfrægum frönskum leikkonum
sem tala frönsku sem er ekkert í líkingu við þá sem töluð er í franska skól-
anum í Teheran, hvað þá við persneskuna sem töluð er á heimili Marji.
Chiara Mastroianni er Marji, Catherine Deneuve móðir hennar (bæði í
mynd og veruleika) og Danielle Darrieux amman. Í samskiptum Vesturlanda
við umheiminn, hvort sem um beint nýlendusamband er að ræða eða ekki,
er þáttur tungumálsins gríðarlega mikilvægur, eins og fjölmargir eftir-
lendufræðingar hafa bent á.15 Tungumálið er þáttur í valdbeitingu og
menningarlegri mótun, en þetta valdatæki getur snúist í höndunum á
valdaþjóðinni, eins og mörg dæmi um blöndun og beitingu tungumála, til
dæmis svokölluð kreólísering, sýna fram á. Það hlýtur því að skipta máli
hér á hvaða máli sagan er sögð. Í myndasögunni veldur tungumálið Marji
ýmiss konar vandræðum tengdum uppruna og stöðu innflytjandans, en
15 Hér mætti benda á fjölmarga texta, en nægir að nefna orðræðugreiningu Edwards
Said í Orientalism (1978) og kenningar Bill Ashcroft, Gareth Griffiths og Helen
Tiffin um tungumál bókmennta og vald í The Empire Writes Back (1989).
SJÁLFSMYND Í KVIKMYND