Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Blaðsíða 32
32
BjöRN ÆGiR NoRðfjöRð
dórs dóttir), auk þess sem að innanhússenur í þeirri síðarnefndu voru kvik-
myndaðar í stúdíói ytra. Hjort kallar það tækifærissinnaðan þverþjóðleika
þegar fyrst og fremst efnahagslegar ástæður búa að baki samstarfi þjóða með
þessum hætti.32 Kvikmyndin The Amazing Truth About Queen Rachela fjallar
aftur á móti beinlínis um tengsl einstaklinga og þjóða í hnattrænu samhengi
og liggur því slík framleiðsla og fjármögnun beint við.
Almennt verður þó að segjast að þverþjóðleiki sá sem einkennt hefur
íslenska kvikmyndagerð undanfarið hafi að mestu leyti verið tækifærissinn-
aður og erfitt að greina mikinn áhuga á umheiminum á meðal íslenskra
kvikmyndagerðarmanna. Enda hafa tilslakanir af hálfu erlendra sjóða og
samframleiðenda hvað varðar kröfur um eiginlega samvinnu endurvakið
þjóðlegri áherslur. og raunar virðist æ oftar horfið frá slíkri samvinnu.
Brúðguminn (2008, Baltasar Kormákur) og Mamma Gógó (2010, Friðrik
Þór Friðriksson) eru dæmi um nýlegar myndir leikstjóra sem eru þaul-
kunnugir þverþjóðlegri kvikmyndagerð en takast í þessum myndum á við
íslensk viðfangsefni, á íslensku og í íslensku umhverfi — og umheimurinn
virðist jafn órafjarri og á dögum íslenska kvikmyndavorsins. Þverþjóðleika
íslenskra mynda undanfarið hefur hins vegar einkum verið að finna í stað-
bundnum útfærslum á glæpaformúlum Hollywood — sem verður að teljast
tækifærissinnaður þverþjóðleiki hvort heldur sem erlent fjármagn er nýtt í
íslenska sögu líkt og í Mýrinni (2006, Baltasar Kormákur) eða markmiðið er
einkum markaðssetning á erlendri grundu, samanber Reykjavík Whale
Watching Massacre (2009, Júlíus Kemp, Hvalaskoðunarblóðbaðið í Reykjavík).
Hafa verður þó í huga að smæð íslenskrar kvikmyndagerðar setur henni
margvíslegar skorður og að við gerð kostnaðarsamra kvikmynda verður
varla komist hjá því að leita eftir erlendu fjármagni, og jafnframt að höfða
til erlendra áhorfenda — ekki síst þess áhorfendahóps sem „sækir heim“
heimskvikmyndir. Það vill nefnilega gleymast þegar rætt er um íslenskar
kvikmyndir að utan landsteinanna eru þær einmitt heimskvikmyndir.
Tækifærissinnað eður ei, íslenskt þjóðarbíó verður ekki skilið til fullnustu
án hugtaksins heimsbíó.
32 Mette Hjort, „on the plurality of cinematic transnationalism,“ World Cinemas,
Transnational Perspectives, ritstj. Nataša Ďurovičová og Kathleen Newman, New
York: Routledge, 2010, bls. 19–20. Alls skiptir Hjort þverþjóðleika í kvikmynda-
gerð í níu ólíkar gerðir, en þær eru svo þröngt skilgreindar að ég efast um almennt
notagildi flokkunarinnar. Aftur á móti er aðgreiningin á fjármögnun/framleiðslu
og efni/þemu myndar algert lykilatriði, sem og tillaga hennar um að beita þver-
þjóðleika sem „skalahugtaki“ svo að hægt sé að ræða um sterkan eða veikan þver-
þjóðleika, bls. 13.