Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 11
11
HRAFNINN
Ennþá kenndi’ eg krummann leiða
kímni í dapran hug mér seiða;
úr værðar-stól hinn vængjabreiða
virti fugl á dyratré,
að mjúku flosi höfði halla,
hugann læt um gátur fjalla;
grunur vill að getsök falla,
greiða svör og láta í té,
hví það forna, fólginspjalla
forað upp frá gröfum sté, –
hvað ömurkrunkið „Aldrei“ sé.
Þetta ákaft yfirvega,
orðlaus sit með þungum trega;
finn ég benmás brúnaloga
brenna sárt í hjartans ró.
Glitsaums-rósa refill fríður
rekkjustólsins værð mér býður,
mildur bjarmi ljóssins líður
laufgaðan um silki-skóg;
á lýstu flosi ljúfur, þýður
lokka-hlýr, er fyrr þar bjó,
aldrei framar unir þó.
Finnst mér hulið ilmker eima,
angan mild um loftið streyma,
engill léttu svifi sveima,
sendur til mín himni frá.
„Þú ert“ sagði’ eg, „huliðsheima
helgimagn, sem fró munt geyma.
Lát mig hætta’ um hana’ að dreyma,
hana, sem ei fæ að sjá.
Drekk, ó, teyga huggun hreina,
henni gleym, er dó þér frá.“
„Aldrei“ kveður krummi þá.