Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 20
20
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON
sjónvarpi jafnframt því sem leikari túlkaði aðstæður ljóðmælanda og hrafn-
inn var leikbrúða.8 Fyrsti kaflinn fjallar um nauðsyn hreyfingar, annar um
viðnám gegn streitu og sá þriðji um hollt mataræði. Í öllum þremur tilvikum
flögrar hrafn inn í herbergi manns sem hyggst breyta lífsháttum sínum til
hins betra. Krummi fjandskapast við alla hollustu og heilsueflingu og er mun
málugri en hrafn Poes. Alltaf hefur ljóðmælandi þó betur og tekst að skapa
sér nýtt líf. „„Til hvers er að húka hérna? / Hér er líf mitt opin ferna / síðasta
á söludegi,“ / sagði ég og upp ég spratt.“ Svo segir ljóðmælandi í öðru erindi
þessa kvæðis og honum auðnast að brjóta á bak aftur það „nevermore“ sem
krummi boðar á ýmsan hátt.
Þótt kvæði Karls Ágústs verði ekki kallað þýðing á verki Poes, heldur
einskonar skopstæling, á það samt rætur í aðstæðum eða „sviðsetningu“
Poes og ber ekki aðeins vitni glöggum skilningi á ljóðformi frumtextans
heldur einnig hagmælsku hins íslenska kvæðasmiðs. Karl Ágúst leikur kveð-
andi Poes eftir í meginatriðum, svo sem síðar verður vikið að. Vitaskuld
orkar hið strangrímaða kvæðaform spaugilega í þessu nýja hlutverki sínu, en
kímnin dregur ekki úr þeim virðingarvotti við Poe sem býr í hollustukvæði
Karls. Og þó að ljóðmælandi rétti úr kútnum í þessum tilvikum, er ekki þar
með sagt að hið demónska vald hrafnsins sé brotið á bak aftur, því að það
lætur gjarnan á sér kræla á ýmsum og ólíkum ögurstundum og tekur á sig
ýmsar myndir. Sá samsláttur seiðandi kvæðaforms, áleitinnar sviðsetningar
og uggvekjandi framandleika sem mótar kvæði Poes orkar sterkt á marga
lesendur. Þeir kunna að tengja það við lífsuppgjör af ýmsu tagi, til dæmis ef
hrafninn er skilinn sem einskonar annað sjálf ljóðmælandans, og kvæðið þar
með sem vettvangur innri átaka í huga hans og lífi.
Rím-mynstur
Í kvæði sínu fylgir Karl Ágúst brag frumtextans – þó að nákvæmar sé að
segja að hann fylgi því bragformi sem tíðkast hefur í íslenskum þýðingum á
„Hrafninum“. Þótt túlka megi „Hrafninn“ í tónlist og myndum, er ljóst að
þau sterku áhrif sem kvæði Poes hefur haft á þá sem lesið hafa ljóðið eða hlýtt
á það flutt, spretta ekki síst af því hvernig kvæðið er kveðið, þ.e. af brag þess,
rími, hljómi og hrynjandi. Raunar má segja að þannig sé tónlist innbyggð í
kvæðið og að hún sé nátengd myndheimi þess og sviðsetningu.
8 Greinarhöfundar þakka Karli fyrir að senda þeim afrit af kvæðabálkinum sem fluttur
var í þremur hlutum í RÚV-Sjónvarpi vorið 1996.